Niðurstöður reglubundinnar könnunar Samtaka atvinnulífsins meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins sýna að fyrirtæki meta stöðu efnahagslífsins betri en áður, en áhyggjur af framtíðarhorfum eru þó til staðar.
Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 12. febrúar til 10. mars, þegar óvissa vegna tolla og alþjóðaviðskipta var töluverð.
Vísitala efnahagslífsins, sem mælir muninn á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar eða slæmar, hefur hækkað talsvert frá haustinu og hefur ekki mælst hærri í þrjú ár.
Hins vegar hefur vísitalan lækkað á milli kannana þegar horft er til næstu sex mánaða, og í fyrsta sinn í tvö ár telja stjórnendur framtíðarhorfur lakari en núverandi stöðu. Fyrirtæki sem selja ekki vörur til útlanda eru almennt bjartsýnni en útflutningsfyrirtæki, og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu meta stöðuna betri en þau sem staðsett eru á landsbyggðinni.
Eftirspurn áfram sterk en breytileg eftir atvinnugreinum
Spurn eftir vörum og þjónustu íslenskra fyrirtækja heldur áfram að aukast samkvæmt svörum stjórnenda. Mest aukning í eftirspurn er talin eiga sér stað í sjávarútvegi, iðnaði og framleiðslu, en óvissa um mögulegt tollastríð milli Bandaríkjanna og Evrópu gæti haft áhrif á þróunina. Fjármálafyrirtæki og fyrirtæki í bygginga- og veitustarfsemi sjá fram á mesta aukningu í innlendri eftirspurn.
Fleiri hyggjast fjölga starfsfólki en starfsmannaskortur stendur í stað
Hlutfall fyrirtækja sem telja sig skorta starfsfólk helst óbreytt frá fyrri könnun, eða um 23%. Hins vegar eykst fjöldi fyrirtækja sem hyggjast fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum og er nú 29%. Starfsmannaskortur er meiri á landsbyggðinni (28%) en á höfuðborgarsvæðinu (22%). Byggingariðnaður og veitustarfsemi glíma enn við mestan skort á starfsfólki.
Aðfangaverð lækkar og verðbólguvæntingar minnka
Stjórnendur spá því að aðfangaverð muni hækka um 2,9% á næstu sex mánuðum. Verðbólguvæntingar drógust lítillega saman og stjórnendur búast við að verðbólga verði um 4% eftir 12 mánuði. Það vekur athygli að stjórnendur eru nú sammála um verðbólguvæntingar í meira mæli en áður, þar sem staðalfrávik svara hefur aldrei verið lægra frá upphafi könnunarinnar.
Launakostnaður vegur þyngst í verðhækkunum
Meirihluti stjórnenda telur launakostnað vera stærsta áhrifaþátt verðhækkana, en hlutfallið hefur lækkað skarpt milli ára.
Þessi breyting gæti tengst Stöðugleikasamningnum sem var undirritaður í mars á síðasta ári.
Á móti eykst vægi annarra þátta eins og eftirspurnar, aðfangaverðs og annarra kostnaðarþátta.
Þegar kemur að verðlækkunum er það helst minni eftirspurn, samkeppnisstaða og álagning sem hafa áhrif. Þá telja stjórnendur að gengi krónunnar muni veikjast lítillega, eða um 0,7%.
Niðurstöðurnar benda til þess að fyrirtæki séu almennt bjartsýn á stöðu efnahagslífsins, en óvissa varðandi þróun alþjóðaviðskipta og efnahagslegra áhrifa á næstu mánuðum veldur nokkrum áhyggjum