Jack Ma, einn af stofnendum Alibaba Group, segir að samkeppni muni styrkja fyrirtækið og að netverslunin þurfi að treysta á markaðinn og nýsköpun. Þetta kemur fram í minnisblaði frá Ma í tilefni 25 ára afmælis fyrirtækisins.

Minnisblaðið kemur einnig í kjölfar þess að Alibaba er ekki lengur undir eftirliti kínverskra stjórnvalda en fyrirtækið var undir rannsókn í þrjú ár.

„Mörg fyrirtæki undir leiðsögn Alibaba standa frammi fyrir áskorunum og eiga möguleika á að komast yfir þær áskoranir. Það er samt eitthvað sem má búast við þar sem ekkert eitt fyrirtæki getur verið á toppnum að eilífu sama hvaða atvinnugrein er um að ræða,“ segir Ma í minnisblaði sem birt var af WSJ.

Kínverskir eftirlitsaðilar sögðu seint í ágúst að þeir hefðu lokið við rannsókn sína á Alibaba eftir að fyrirtækinu hafði verið refsað fyrir misnotkun á einokunarstöðu sinni árið 2021. Undanfarin þrjú ár hefur fyrirtækinu verið gert að skila sjálfsmatsskýrslum til kínverskra markaðseftirlitsaðila.

Ma ítrekaði þó metnað Alibaba og sagði að það sé fyrirtæki sem geti lifað minnst 102 ár. Hann hvatti starfsmenn Alibaba til að hætta ekki við í ljósi áskorana og samkeppni.