Skel fjárfestingarfélag mun bjóða 10-15% hlutafjár í Styrkási til sölu til hornsteinsfjárfesta á næstunni. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu Skeljar um ársuppgjör fjárfestingarfélagsins.

„Markmiðið er að félagið teljist ekki dótturfélag Skeljar og laða að langtímafjárfesta,” segir í fjárfestakynningunni.

Styrkás, sem stefnir á skráningu í Kauphöllina á árinu 2027, er í 63,4% eigu Skeljar fjárfestingafélags og 27% í eigu framtakssjóðsins Horn IV. Meðal annarra hluthafa er Máttarstólpi ehf., í eigu Ásgeirs Þorlákssonar, og starfsmenn.

Skel færði upp virði 63,4% eignarhlutar síns í Styrkási um liðlega þriðjung á síðasta ári og mat hann á 13 milljarða króna um áramótin. Matið byggir á síðasta viðskiptaverði með hlutafé félagsins.

Miðað við þetta er eigið fé Styrkáss metið á 20 milljarða króna. Söluandvirði 10-15% eignarhlutar gæti því hljóðað upp á 2-3 milljarða króna.

Styrkás er þjónustufyrirtæki, stofnað árið 2022, og samanstendur af Skeljungi, Kletti og Stólpa Gámum. Félagið tilkynnti í lok síðasta árs um yfir 6 milljarða króna kaup á Hringrás ehf. sem starfar á umhverfissviði og er hugsað sem fjórði kjarninn í rekstri félagsins.

Þess má geta að Styrkás náði síðasta sumar samkomulagi um kaup á Krafti ehf., söluaðila MAN, Palfinger og Bucher-Municipal á Íslandi, en samningsaðilar ákváðu á endum að falla frá viðskiptunum vegna ágreinings við samkeppnisyfirvöld um markaðsskilgreiningar.

Mynd tekin úr fjárfestakynningu Skeljar.

EBITDA 2% umfram áætlanir

Í fjárfestakynningu Skeljar segir að metafkoma hafi verið Styrkási í fyrra þar sem öll svið hafi skilað góðri rekstrarafkomu. Rekstrarhagnaður Styrkáss fyrir afskriftir (EBITDA) nam 2.649 milljónum króna (án áhrifa IFRS) sem var 2% umfram áætlanir stjórnenda.

Fram kemur að sala á eldsneyti hafi aukist um 5% í magni á milli ára. Metár hafi verið í sölu á Scania vörubifreiðum og góður gangur í sölu á CAT vélum. Þá kynnti Stólpi nýjar lausnir á húsnæðismarkaði fyrir sveitarfélögum og framkvæmdaraðilum.

„Horfur fyrir 2025 eru góðar. Áætlun ársins byggir á 10% aukningu rekstrarhagnaðar hjá Stólpa og Kletti, en reiknað er með samdrætti í sölu eldsneytis vegna aukinna skatta og kolefnisgjalds sem færir sölu eldsneytis frá Íslandi.”