Hlutabréfaverð finnska tölvuleikjafyrirtækisins, Rovio Entertainment Oy, sem er hvað þekktast fyrir að framleiða snjallsímaleikinn Angry Birds, hefur hækkað um meira en 30% í dag.
Rovio tilkynnti í morgun um yfirtökutilboð frá ísraelska fyrirtækinu Playtika sem hljóðar upp á 751 milljón evra, eða sem nemur 116 milljörðum króna. Stjórn Rovio sagðist ekki eiga í virkum viðræðum við Playtika en hyggst leggja mat á tilboðið.
Playtika sérhæfir sig í snjallsímaleikjum í líkingu við fjárhættuspil en hefur að undanförnu bætt við sig leikjum sem í ætt við Angry Birds með röð yfirtaka, samkvæmt Wall Street Journal. Playtika sagði í tilkynningu að með því að samnýta hugverk og notendahóp Rovio og tekjumódel og tölvuleikjastarfsemi sína væri hægt að skapa virði fyrir hluthafa.