Danska félagið DSV og fjárfestahópur sem CVC Capital partners leiðir hafa lagt inn sitthvort skuldbindandi tilboðið í DB Schenker, dótturfyrirtæki þýska ríkisfyrirtækisins Detusche Bahn, samkvæmt heimildum Bloomberg.
Tilboðin verðmeta DB Schenker, sem sérhæfir sig í vörustjórnun (e. logistics), á ríflega 14 milljarða evra.
Fjárfestahópurinn sem CVC leiðir - sem inniheldur m.a. GIG, þjóðarsjóð Singapúrs, og Abu Dhabi Investment Authority þjóðarsjóðinn - lagði raunar inn tvö yfirtökutilboð. Hið seinna hljóðar upp á 16 milljarða evra en umrætt tilboð felur í sér að þýska ríkið yrði að endurfjárfesta fyrir um 3 milljarða evra til að halda áfram á 25% hlut í DB Schenker.
DB Schenker var sett í formlegt söluferli í desember síðastliðnum en söluandvirðinu er ætlað að hjálpa járnbrautafyrirtækinu Deutsche Bahn að greiða niður skuldir og ráðast í fjárfestingar í þýska járnbrautakerfinu.
Deutsche Bahn er nú að leggja mat á lokatilboðin í söluferlinu, samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg. Ríkisfyrirtækið mun jafnframt ráðfæra sig við þýsku ríkisstjórnina varðandi ofangreint tilboð CVC.
Fyrirhuguð sala á DB Schenker verður sennilega ein stærstu fyrirtækjaviðskiptin í Evrópu í ár. Í umfjöllun danska viðskiptamiðilsins Børsen segir að verði tilboð DSV fyrir valinu þá yrði það jafnframt ein stærsta yfirtaka í sögu Danmerkur.