Stjórn eins stærsta rekstraraðila keiluhalla í Bretlandi, Ten Entertainment Group, tilkynnti í morgun um hún hefði samþykkt skilmála yfirtökutilboðs frá bandaríska yfirtökusjóðnum Trive Capital. Skynews greinir frá.

Heildarverðmæti hlutafjár breska keiluhallarfélagsins, sem er skráð í kauphöllina í London, er metið á 287 milljónir punda eða um 50 milljarða króna samkvæmt tilboði Trive.

Tilboðið hljóðar upp á gengið 412,5 pens fyrir hvern hlut í Ten Entertainment í reiðufé. Til samanburðar var gengi félagsins í 310 pens á hlut við lokun markaða í gær. Tilboðið er því 33% yfir markaðsverði hlutabréfanna í gær. Ten Entertainment var skráð í kauphöllina í London á genginu 165 pens á hlut fyrir sex árum.

Ten Entertainment Group rekur 52 keiluhallir með samtals um 1.200 brautum víðs vegar um Bretland. Fyrirtækið býður einnig upp á annars konar upplifanir á sínum stöðum á borð við flóttaherbergi (e. escape room), lasertag og karókí.