Verðbréfafyrirtækið Robinhood mun á næstu vikum bjóða viðskiptavinum sínum í Bretlandi upp á að framkvæma hlutabréfakaup með lánsfé frá fyrirtækinu.
Um er að ræða svokallað Margin Trading fyrirkomulag en það er þegar verðbréfaviðskipti eru fjármögnuð að hluta til með lánsfé frá verðbréfafyrirtæki.
Samkvæmt Financial Times hefur þetta fyrirkomulag átt stóran þátt í að ýta undir fjárfestingaræði almennings í Bandaríkjunum.
Robinhood er um þessar mundir að reyna að sækja fram á Bretlandsmarkaði en samkvæmt FT er fyrirtækið einnig með til skoðunar að bjóða Bretum upp á langtímasparireikninga.
Robinhood heldur úti smáforriti fyrir hlutabréfaviðskipti án þóknana og hefur átt stóran þátt í að auka fjárfestingaáhuga hins almenna borgara í Bandaríkjunum.
Vlad Tenev, meðstofnandi og forstjóri Robinhood, segir í samtali við FT að fyrirtækið sjái tækifæri til að breyta fjárfestingahegðun Breta en markmið félagsins er að fjárfestar séu virkari í kaupum og sölum.
„Menningin í Bretlandi hefur í raun ekki tekið sömu breytingum og í Bandaríkjunum. Það hefur ekki verið mikil aukning í fjárfestingum meðal almennings,“ segir Tenev.
Robinhood ákvað að sækja fram inn á Bretlandsmarkað og hefur félagið verið að reyna að sækja markaðshlutdeild með því að undirbjóða hefðbundin verðbréfafyrirtæki.