Alma íbúðafélag mun ekki bjóða upp á aðra leigusamninga en til 13 mánaða héðan í frá en um er að ræða viðbrögð við nýjum húsaleigulögum sem tóku gildi um mánaðarmótin. Frá þessu greinir Ingólfur Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags, í tilkynningu um árshlutareikning félagsins.

Óvissa fylgi því hvernig lögunum verði framfylgt af Kærunefnd húsnæðismála og því hafi félagið ákveðið að aðlaga þjónustuframboð sitt til að mæta þeirri réttaróvissu.

Áður bauð Alma upp á leigusamninga sem voru frá 12-60 mánaða. Í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir Ingólfur Árni að allir samningar félagsins séu verðtryggðir. Þá heyri það til algerra undantekninga ef leigutökum býðst ekki að framlengja leigusamning við lok leigutímabils.

Greint var frá efni nýju laganna í umfjöllun Viðskiptablaðsins í vikunni en málið hefur sætt gagnrýni allt frá því að þáverandi innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, boðaði lagafrumvarp um málið þar sem þau eru talin auka óvissu og draga úr framboði. Meðal helstu breytinga í nýjum lögum er að vísitölutenging samninga til 12 mánaða eða skemur er óheimil. Þá geta bæði leigusali og leigjandi skotið ágreiningi um leiguverð til Kærunefndar húsnæðismála, þar sem miðað er við svokallaða markaðsleigu.

Þakklát fyrir góða eftirspurn viðskiptavina

Samkvæmt árshlutareikningi nam hagnaður samstæðu Ölmu íbúðafélags á fyrstu sex mánuðum ársins 2023 266 milljónum króna, samanborið við 2,1 milljarðs tap á sama tímabili í fyrra. Rekstrartekjur námu tæpum 2,6 milljörðum og hreinar leigutekjur jukust til að mynda um 355 milljónir frá sama tímabili í fyrra.

„Við erum nokkuð ánægð með rekstur félagsins á síðasta árshelmingi og erum sérstaklega þakklát fyrir góða eftirspurn viðskiptavina okkar eftir þjónustu félagsins. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar og afskriftir jókst um 437millj. kr. eða 28% og var tæplega 2 milljarðar kr.  Sá rekstrarbati skýrist að mestu af útleigu á nýbyggðu atvinnuhúsnæði sem var ekki tekjuberandi á fyrri hluta síðasta árs,“ segir Ingólfur Árni.

„Eftirspurn eftir leigu íbúðarhúsnæðis var sterk á tímabilinu og þrátt fyrir að íbúðir okkar í Grindavík séu algjörlega ótekjuberandi þá hélst afkoma af leigu íbúðarhúsnæði nokkuð stöðug milli ára. Miðað við núverandi vaxtastig gerum við ráð fyrir að framboð á nýju íbúðarhúsnæði muni ekki halda í við aukna eftirspurn a.m.k. næstu 2-3 árin og því teljum við að leigumarkaður íbúðarhúsnæðis haldist sterkur næstu misserin.“

Eigið fé samstæðunnar nam 34,9 milljörðum króna og heildareignir námu tæplega 111 milljörðum. Dótturfélög Ölmu íbúðarfélags eru Alma langtímaleiga ehf., Alma hótelíbúðir ehf., Brimgarðar ehf., FS Glaðheimar ehf., Glaðsmíði ehf., Heimagisting Bjarkargötu 12 ehf., Höfuðborgin okkar ehf., K102 ehf., Laugavegur 73 ehf., U26 ehf., Ylma ehf. og 14. júní ehf.