Verð á eggjum í Bandaríkjunum hefur næstum tvöfaldast á einu ári og hafa neytendur þar í landi sífellt verið að leita sér leiða til að koma til móts við hækkunina. Ekkert lát virðist á þessari þróun en eggjaverð hækkaði til að mynda um 15% bara í síðasta mánuði.

Hjón í New Hampshire í Bandaríkjunum hafa hins vegar ákveðið að koma með sérstaka lausn á þessu vandamáli en þau bjóða nú fólki að leigja sér hænu.

Christine og Brian Templeton búa í bænum Goffstown en þar hafa þau stofnað fyrirtækið Rent The Chicken sem leyfir viðskiptavinum að leigja nokkrar í sex mánuði fyrir rúmlega 600 dali, eða um 83 þúsund krónur.

Innifalið í verðinu er allt fóður fyrir hænurnar ásamt kennsluefni og símanúmeri sem hægt er að hringja í ef upp koma spurningar. Viðskiptavinir geta þá búist við að fá hátt í tólf egg á viku frá aðeins tveimur hænum.

Brian segir að ferlið sé mun auðveldara en margir halda. „Þú hleypir þeim bara út og þau labba svo um og á nóttunni fara þær svo aftur inn. Þetta er mjög lítið viðhald og fólk hefur líka mjög gaman af þessu.“

Christine tekur í sama streng og segir að viðskiptavinir myndi oft sterk tengsl við hænurnar eftir lok leigutímabilsins og vilji jafnvel halda þeim lengur. Hún segir að í heimi þar sem fólk hafi sífellt meiri áhyggjur af fæðuöryggi og verðhækkunum þá séu sjálfbærar lausnir, eins og Rent The Chicken, tilvalinn valkostur og bæti einnig smá lífi í bakgarðinn hjá fólki.