Viska - stéttarfélag hefur opnað námsmannaþjónustu fyrir háskólanema sem eru að vinna með námi eða eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði.

Í þjónustunni fá háskólanemar aðgang að snjalltryggingu hjá Sjóvá - án þess þó að þurfa að stofna til formlegra viðskipta við félagið - þeim að kostnaðarlausu en um er að ræða hóptryggingu fyrir snjalltæki, tölvur, hjól og rafhlaupahjól.

Forsvarsmenn Visku og Sjóvá skrifuðu undir samning þess efnis í vikunni en samningurinn er að norrænni fyrirmynd og sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi.

„Við erum mjög ánægð með samstarf Sjóvá og Visku. Snjalltrygging okkar á auðvitað beint erindi við háskólanema, sem mega vart við því að missa síma og tölvu í skemmri eða lengri tíma og við erum stolt að vera samstarfsaðili Visku með þessa einstöku vöru. “ sagði Birgir Viðarsson framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar hjá Sjóvá.

Um er að ræða afrakstur samstarfs Visku og LÍS - Landssamtaka íslenskra stúdenta sem miðaði að því að efla þekkingu háskólanema á kjara- og réttindamálum á vinnumarkaði.

„Með því að skrá sig í Visku geta háskólanemar byrjað strax að safna réttindum í stéttarfélagi við sitt hæfi og notið víðtækrar þjónustu. Þannig geta háskólanemar fengið aðgang að sérfræðingum Visku vegna vinnu með námi og ráðgjöf þegar fyrstu skrefin eru tekin á vinnumarkaði. Háskólanám er upphaf starfsferils og við hjá Visku lítum á allt frá fyrstu kennslustund í háskóla til lífeyristökuára sem okkar viðfengsefni.“ segir Georg Brynjarsson, framkvæmdastjóri Visku.

Að sögn Georgs hefur allt ferlið í kringum samstarfið og mótun hinnar nýju þjónustu verið einstaklega ánægjulegt. Þá sé ánægjulegt að sjá verkefnið raungerast eftir ítarlega skoðun á sambærilegum verkefnum á Norðurlöndunum.

Viska - stéttarfélag tók til starfa um áramótin eftir sameiningu nokkurra rótgróinna stéttarfélaga sérfræðinga og er í dag stærsta aðildarfélag BHM.