Stjórnvöld í Japan hyggjast bjóða foreldrum sem flytja úr höfuðborginni Tókýó 1 milljón jena, eða sem nemur ríflega einni milljón króna, fyrir hvert barn á heimilinu ef þær flytja úr stórborginni til nærliggjandi sveitarfélaga, samkvæmt heimildarmönnum Financial Times.
Um er að ræða meira en þrefalt hærri fjárhæð en í núverandi kerfi, sem tók gildi árið 2019. Fjölskyldum býðst nú 300 þúsund jen á hvert barn fyrir að nýta sér úrræðið.
Áformin um auka greiðslu fyrir hvert barn er aðeins hluti af skuldbindingum stjórnvalda til að hvetja ungar fjölskyldur að flytja til minni sveitarfélaga. Fjölskyldur sem koma sér fyrir á nýjum stað býðst þegar allt að 3 milljónir jena í eingreiðslu og eiga kost á enn frekari styrk ef þær stofna fyrirtæki.
Fjölskyldur sem þiggja styrk frá stjórnvöldum ber að búa utan stórborgarinnar í að minnsta kosti fimm ár en annars þurfa þær að endurgreiða ríkinu.
Fólksfækkun, hækkandi aldur þjóðarinnar ásamt búferlaflutningum ungs fólks til höfuðborgarinnar hefur haft neikvæð áhrif á bæi og minni borgir í Japan. Viðskiptavinum og starfandi fólki á svæðunum hefur farið fækkandi. Þá er áætlað að fjöldi tómra íbúða í Japan verði um 10 milljónir í ár.
Um 1.300 japönsk sveitarfélög hafa óskað eftir að taka á móti fólki frá höfuðborginni. Um 2.400 manns nýttu sér úrræði stjórnvalda árið 2021, eða sem nemur 0,006% af þeim 38 milljónum sem búa á höfuðborgarsvæði Tókýó.