Flugfélagið Wizz Air býður nú upp á áskriftarþjónustu fyrir flugferðir sínar þar sem viðskiptavinir geta flogið eins og þeir vilja fyrir 499 evrur, eða tæpar 76 þúsund krónur á ári. Flugfélög hafa áður fyrr boðið upp á tilboðspakka en slík tilboð eru ný af nálinni.

Áskriftarþjónustan verður í boði á þessu verði til 16. ágúst en eftir það hækkar verðið í 599 evrur.

Viðskiptavinir sem taka við þessu tilboði munu geta bókað ferðir til Evrópu, Norður-Afríku, Miðausturlanda og Asíu með allt að þriggja daga fyrirvara en greiða þó 9,99 evra fast gjald fyrir hverja bókun.

Að sögn BBC hefur Wizz Air þegar selt hátt í tíu þúsund áskriftir en samkvæmt vefsíðu félagsins eru margir svokallaðir forgangsflugvellir uppseldir. Þegar slíkir flugvellir eru valdir stendur einfaldlega: „Ef þú getur ekki valið þann flugvöll sem þú vilt þýðir það að takmörkunum á þann völl hefur verið náð og getur Wizz Air því miður ekki boðið þér þann flugvöll að svo stöddu.“

Jafnframt segir að flugfélagið geti ekki tryggt viðskiptavinum sætaframboð og skýrist það af „nokkrum innri og ytri þáttum“.

Wizz Air hefur þurft að þola töluverða gagnrýni undanfarin misseri. Í júní á þessu ári var Wizz Air valið versta flugfélagið í Bretlandi með 31 mínútna seinkun að meðaltali. Samkeppniseftirlit Ungverjalands sektaði einnig Wizz Air í þessum mánuði um 770 þúsund evrur fyrir villandi auglýsingar.