Amazon hefur náð samkomulagi við húsnæðislánafyrirtækið Better.com sem gerir starfsfólki netrisans kleift að nota hlutabréf í Amazon sem veð við kaup á fasteign. Wall Street Journal greinir frá.

Með nýju lánafyrirkomulagi Better, Equity Unlocker, geta starfsmenn Amazon fengið viðbótarlán fyrir útborgun í fasteign með veði í hlutabréfum. Þeir geta þannig komist hjá því að selja bréfin til að fjármagna útborgun.

Til að verja sig fyrir lækkun á hlutabréfaverði Amazon mun Better rukka 0,25-2,50 prósentu álag á markaðsvexti á íbúðalán hjá starfsmönnum Amazon sem nýta sér þetta úrræði. Vishal Garg, forstjóri Better, segir að ólíkt hefðbundnum lánum með veði í hlutabréfum innihaldi þetta lánafyrirkomulag ekki hættu á veðköllum.

Amazon hefur í gegnum tíðina greitt minna af kaupaukum í reiðufé til starfsfólks heldur en keppinautar sínir og reynt að bæta það upp með kaupréttum eða öðrum hlutabréfahlunnindum sem almennt verða innleysanleg á nokkrum árum.

Nick Taylor, yfirmaður fasteignamarkaðar Better, segir við Housing Wire að félagið hafi tekið eftir því á síðasta ári að tæplega 1% af útlánum hafi verið til starfsmanna Amazon. Mikill áhugi hafi verið á að finna lausn sem auðveldaði starfsmönnum að fá lán út á hlutabréfin.

Með þessu lánafyrirkomulagi geti starfsmenn sparað fjármanstekjuskatt sem annars þyrfti að greiða við sölu á hlutabréfunum auk þess að gefa þeim kost á að eiga bréfin lengur.

Meðal fjárfesta á bak við Better er Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar. Staðið hefur til að sérhæfða yfirtökufélagið Aurora Acquisition, sem Novator leiðir, sameinist Better en þau áform hafa tafist töluvert samhliða versnandi markaðshorfum.