Næstu fimmtudaga til laugardaga verður nýr veitingastaður félaganna á bakvið Matbar á horni Hverfisgötu og Smiðjustígs opnaður beint á móti Kaffibarnum en staðurinn verður taco skyndibitastaður og bar.
„Við hefjum þetta verkefni sex kokkar sem allir erum góðir vinir, en við byrjuðum fyrst að bera fram taco á Matbar fyrir um ári síðan sem varð mjög vinsælt. Það hefur verið lítið úrval af góðu taco hér á landi en við sáum að það er hægt að gera þetta á skemmtilegan og spennandi hátt,“ segir Egill Pietro Gíslason, einn stofnenda MB Taqueria við Bergstaðastræti 4.
„Þessi staður verður bar og skyndibitaveitingastaður, þar sem hægt er að fá matinn fljótt og annaðhvort taka hann með sér eða setjast niður og borða og jafnvel fá sér kokteil með. Þarna verður aðeins hærri tónlist, hrárra og meiri stemning en á Matbarnum sem er fínni og hefðbundnari veitingastaður,“ segir Egill Pietro.
„Við verðum til dæmis með mjög gott úrval af kokteilum og svo sterkum drykkjum en við erum með stærsta úrval tequila og mescal sem er í boði í borginni. Það hafa mjög fáir staðir hér boðið upp á bæði svona barstemningu en á sama tíma góðan mat, því oftast er þetta tvennt alveg aðskilið.“
Lítið upplýsingaflæði frá borginni
Egill Pietro og félagar duttu niður á húsnæðið á móti Kaffibarnum fyrr í sumar en þar hafði áður verið bæði súpubar og í fyrndinni gullsmíðaverkstæði móðurbróður blaðamanns. Húsnæðið lætur lítið yfir sér enda nokkuð inn af götunni.
„Við þurftum að endurbyggja loftræstikerfið þarna inni til að fá löglega að elda og það hefur bara tekið gríðarlega langan tíma að fá öll gögn í gegn og alls konar leyfi til að gera það,“ segir Egill, en þeir bíða enn eftir úttekt byggingayfirvalda í Reykjavík til að geta opnað formlega, en þangað til er maturinn eldaður á Matbarnum.
„Það lætur okkur enginn vita hvað er að gerast meðan þetta er á bið, það vantar svolítið upp á upplýsingaflæðið frá borginni.“
Egill Pietro sér um nýja staðinn ásamt samstarfsfélaga sínum úr MB hópnum eins og þeir kalla sig, Sigurði Strarup Sigurðssyni, en hinn hluti hópsins, þeir Hrafnkell Sigríðarson, Fannar Gunnarsson, Guðlaugur M. Ingibjörnsson, Eggert Gíslason Þorsteinsson og Lukas Dziuk munu áfram sjá um Matbarinn sem hópurinn stofnaði.
„Með því að opna þennan stað og svo vonandi kannski einhverja fleiri staði í framtíðinni getum við dreift okkur um þannig að allir í hópnum fái tækifæri til að gera meira af því það sem þá langar að gera,“ segir Egill Pietro.
„Líkt og á Matbar stefnum við á að hafa matseðilinn árstíðarbundinn, þó það sé óttalegt tískuorð. Við erum mikið fyrir það að breyta matseðlinum og jafnvel taka út það sem er vinsælt, bara því okkur langar að gera eitthvað nýtt og staðna ekki. Ég vil meina að hægt sé að setja mjög margt í taco form, það þarf ekki að vera bara annaðhvort hakk eða fiskur eins og er algengast og verður því matseðilinn mjög breytilegur.“
Stefnt er að því að MB Taqueria verði opið alla daga þegar öll leyfi fást, en tvær prufuopnanir hafa þegar gengið vel, annars vegar á dögunum þegar blaðamaður villtist þangað inn og fékk dýrindis lambakássu sem hann gat sett eftir eigin smekk á mjúkt tacoið. „Við buðum bara fólki úr bransanum að prófa, en síðan opnuðum við líka á Menningarnótt, og þá var mikil stemning.“