Ísland á áfram tvo fulltrúa á árlegum lista Forbes yfir milljarðamæringa heims. Björgólfur Thor Björgólfsson og Davíð Helgason klifruðu báðir upp listann frá síðustu útgáfu og auðæfi þeirra jukust á milli ára. Forbes birti auðmannalistann fyrir árið 2022 í dag.

Fjárfestirinn Björgólfs Thor Björgólfssonar, stofnandi fjárfestingafélagsins Novator, fór upp um 206 sæti á milli ára og situr nú í 1.238. sæti. Auðæfi hans eru metin á 2,5 milljarða dala, eða um 320 milljarða króna, samanborið við 2,2 milljarða dala árið 2021.

Davíð Helgason, einn af þremur stofnendum Unity, komst fyrst inn á Forbes listann í fyrra, stuttu eftir skráningu hugbúnaðarfyrirtækisins á markað í Bandaríkjunum. Auðæfi hans voru metin á 1,1 milljarð dala í ár, eða um 142 milljarða króna, samanborið við 1,0 milljarða dala árið áður. Davíð hoppar upp um 226 sæti frá síðasta lista og vermir 2.674. sætið í ár.

Sjá einnig: Davíð selt fyrir 20 milljarða

Útlit var fyrir að Davíð myndi vera ofar á listanum í ár en hlutabréfaverð Unity lækkaði talsvert í byrjun árs og var nálægt sínu lægsta gengi frá skráningu þann 11. mars síðastliðinn en Forbes metur auðæfi allra einstaklinga á listanum út frá þeirri dagsetningu. Gengi Unity hefur hækkað um fjórðung síðan þá.

Auðæfi Abramovich helmingast

Alls komust 2.668 aðilar á listann í ár en þeim fækkaði um 87 frá fyrra ári. Munaði þar mest um að rússneskum milljarðamæringum fækkaði um 34 á milli ára, aðallega vegna innrásar Rússlands í Úkraínu, og 87 færri Kínverjar komust á listann í ár eftir að kínversk stjórnvöld beittu miklum inngripum hjá tæknifyrirtækjum á síðasta ári.

Roman Abramovich, fráfarandi eigandi Chelsea, er áfram á listanum en auðæfi hans minnkuðu hins vegar úr 14,5 milljörðum í 6,9 milljarða dala á milli ára. Auður allflestra Rússa á listanum minnkaði nokkuð á milli ára.

Rihanna og Peter Jackson nýliðar

Tónlistarkonan Rihanna er eflaust þekktasti nýliðinn á listanum en auður hennar er metinn á 1,7 milljarða dala. Eignarhlutur hennar í Fenty Beauty snyrtivörulínunni og Savage X Fenty undirfatafyrirtækinu spila stóran þátt í að hún er fyrsti einstaklingurinn frá Barbados sem kemst inn á Forbes listann.

Peter Jackson, sem gerði garðinn frægann við að leikstýra Lord of the Rings kvikmyndunum, komst í fyrsta sinn á listann í ár en hann er metinn á 1,5 milljarða dala eftir að hafa selt eignarhlut sinn í tæknibrellufyrirtækisins WETA Digital til Unity í haust.

Melinda French Gates, fyrrum eiginkona Bill Gates, er meðal ríkustu nýliðanna á listanum en auðæfi hennar eru metin á 6,2 milljarða dala.

Hinn 40 ára gamli Leonid Radvinsky getur nú einnig státað sig af nafnbótinni „milljarðamæringur“ en ráðandi hlutur hans í samfélagsmiðlinum OnlyFans hefur hjálpað honum að ná auðæfum upp á 1,2 milljarða dala.

Zuckerberg dottinn úr topp 10

Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla, er ríkasti maður heims samkvæmt listanum en auðæfi hans voru metin á 219 milljarða dala þann 11. mars. Samkvæmt rauntímalista Forbes er auður hans kominn upp í 290 milljarða en hlutabréfaverð Tesla hefur hækkað hratt á síðustu vikum.

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, er ekki lengur meðal tíu ríkustu aðilanna á listanum en hann féll niður um tólf sæti frá síðasta lista og situr nú í því fimmtánda. Zuckerberg hefur verið meðal tíu efstu á listanum frá árinu 2015 og var hann þriðji efsti á listanum í fyrra. Hlutabréfaverð Meta, móðurfélags Facebook hefur fallið um nærri þriðjung í ár en gengið lækkaði um 20% eftir birtingu uppgjörs í byrjun febrúar.

Tíu efstu á Forbes listanum fyrir árið 2022:

  1. Elon Musk – 219 milljarðar dala
  2. Jeff Bezos – 171 millljarðar dala
  3. Bernard Arnault og fjölskylda – 158 milljarðar dala
  4. Bill Gates – 129 milljarðar dala
  5. Warren Buffett – 118 milljarðar dala
  6. Larry Page – 111 milljarðar dala
  7. Sergey Brin – 107 milljarðar dala
  8. Larry Ellison – 106 milljarðar dala
  9. Steve Ballmer – 91,4 milljarðar dala
  10. Mukesh Ambani – 90,7 milljarðar dala