Netverslunin Sante.is hefur undanfarið fjölgað vörutegundum mikið. Í síðustu viku fékk fyrirtækið stóra sendingu af bjór og aperatif. Margar vörurnar hafa ekki verið í sölu áður hjá Sante.is.
Verulegur munur er á verði Sante.is og Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Mestu munar á Tiger bjórnum í dósum. Hjá ÁTVR kostar flaskan 458 krónur en hjá Sante.is 270 krónur. Verðmunurinn er 41%.
Hér má sjá samanburð á 9 bjórtegundum hjá Sante.is og ÁTVR:
Bjóða einnig upp á aperitif
Sante.is býður nú einnig upp á Aperol sem er ítalskur aperitif, blandaður í sumardrykkinn Aperol Spritz. Sala á Aperol hefur þrefaldast á síðasta áratugnum en drykkurinn kom fyrst á markað árið 1919.
Í ríkisversluninni kostar 70 cl flaska af Apperol 3.599 krónur en 2.900 krónur hjá Sante.is. Munurinn er 19,42%. Að auki selur Sante nú Campari en í því tilviki er verðmunurinn 6,93%.
Sagði áfengisverð 15-20% of hátt
Arnar Sigurðsson, eigandi Santewines, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í lok síðasta mánaðar að áfengisverð hjá ÁTVR væri 15-20% of hátt, þrátt fyrir mikla skattlagningu áfengis á Íslandi.
Arnar ræddi af hverju ÁTVR mætti ekki flytja inn vörur erlendis frá en mætti á sama tíma kaupa vörur af heildsölum.
„Þegar sett eru lög um að ÁTVR megi ekki flytja inn vörur, hver ætli hafi verið með puttann á því að slíkar kvaðir hafi verið settar? Það er mjög áhugavert að hugsa út í það hver græðir á frelsinu og hver græðir á helsinu. Að mínu mati er einokunarverslun ekki nein sérstök tímaskekkja núna, ég einfaldlega tel að slíkt óyndisfyrirkomulag hafi aldrei haft rétt á sér. Sú samkeppni sem verið hefur hér á markaði nú í eitt ár, ætti að hafa sannað að frelsið hyglir mörgum á kostnað fárra en helsið fáum á kostnað margra. Þeir fáu eru klárlega núverandi birgjar ÁTVR.“