Framkvæmdir eru hafnar við Turninn, Smáratorgi 3, unnið er að því að stækka aðra hæð út á bílaplanið við Smáralind og opna veitingaaðstöðu í tæplega 700 fermetra rými.
„Á nítjándu hæð hefur undanfarin ár verið mötuneyti, en eftir að framkvæmdum lýkur mun önnur hæðin taka við því hlutverki,” segir Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar fasteignafélags, sem á og rekur Turninn. „Uppröðun og skipulag hæðarinnar er enn á hugmyndastigi, en til skoðunar er að hæðin fari undir mathöll.“ Stefnt er að framkvæmdum ljúki haustið 2023.
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er Björn Bragi Arnarsson, athafnamaður og grínisti orðaður við aðkomu að rekstri væntanlegrar mathallar í Turninum, viðræður standa yfir en eru ekki enn í höfn. Björn Bragi kemur nú þegar að rekstri tveggja mathalla, annarsvegar Borg29 í Borgartúni og svo Veru, sem opnar formlega í Grósku núna eftir helgi. Fari svo að Björn Bragi opni sína þriðju mathöll verður þetta fyrsta mathöllin í Kópavogi. Í Reykjavík hafa þær hins vegar sprottið upp eins gorkúlur en greint var frá því fyrr á árinu að þrjár mathallir myndu opna í miðbænum, á Vesturgötu, Hafnartorgi og í Pósthússtræti. Fyrir er að finna mathallir á Granda, Hlemmi og Höfða sem og Grósku og í Borgartúni.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið en í blaðinu er einnig fjallað um:
- Úttekt á stærstu lóðaviðskiptum síðustu missera, sem hlaupa í það heila á tugum milljarða króna.
- Fjallað um hugsanlegan aðskilnað kjarnastarfsemi Ernst & Young, endurskoðunar og ráðgjafar, og ólíkar aðstæður starfseminnar hér og á stærri mörkuðum.
- Farið er yfir fyrri samskipti Símans og Samkeppniseftirlitsins. En fyrirtækið hefur greitt hátt í milljarð í stjórnvaldssektir vegna samkeppnislagabrota.
- Úttekt á aukinni spákaupmennsku með krónuna og áhrifum á gengið.
- Umfjöllun um þróun auðæva Björgólfs Thors Björgólfssonar.
- Rætt er við Guðnýju Steinsdóttur nýjan markaðsstjóra Borgarleikhússins.
- Huginn og muninn er á sínum stað sem og Týr sem fer yfir einkennilega umræðu um hvalveiðar.
- Deed Delivery er íslenskt sprotafyrirtæki sem vinnur að þróun hugbúnaðar sem einfaldar samskipti milli heimsendingaraðila og viðskiptavina.