Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra og alþingismaður skrifaði pistil á síðu sína bjorn.is í morgun með fyrirsögninni TF SIF má ekki selja.

Björn bendir á að TF-SIF hafi verið tekin í notkun 1. júlí 2009 og tækjakostur hennar hafi ollið byltingu í öllu eftirliti á Norður-Atlantshafi. Svíar hafi þá átt þrjár eins vélar og hagkvæmt hafi verið fyrir Íslendinga að eiga samleið með þeim.

Björn hefur ítrekað bent á undanfarin misseri að staða Íslands í öryggismálum hafi breyst, ekki síst eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Björn, sem var dómsmálaráðherra þegar ákveðið var að kaupa vélina, segir:

Frá því að þáttaskilin urðu með komu TF-SIF hafa miklar breytingar orðið í öllu sem varðar eftirlit á hafinu og umsvif á hafsvæðum sem árið 2009 voru álitin friðsamleg en hafa síðan tekið á sig aðra mynd.

Síðar í pistlinum segir að öryggismál á N-Atlantshafi hafi tekið á sig allt aðra og alvarlegri mynd en árið 2009 þegar TF-SIF kom til landsins. Um ákvörðunina, að hætta rekstri vélarinnar, segir Björn:

Hér skortir rannsóknir og ígrunduð rök þegar að herfræðilegum málefnum kemur og hvernig nýta beri borgaraleg öryggistæki þjóðarinnar sem best í því samhengi. Eitt er þó víst að í því tilliti er fráleitt að nú sé tekin ákvörðun um að leggja TF-SIF eða jafnvel selja vélina.

Björn Bjarnason hefur bloggað í 28 ár á bjorn.is.
© BIG (VB MYND/BIG)

Björn setti tengil á pistilinn á Fésbókarsíðu sinni og hafa þar verið miklar umræður um málið.

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, útskýrir sjónarmið ráðuneytisins þar. Hann segir að brúa þurfi um 500 milljóna króna gat í rekstri Landhelgisgæslunnar og skásta niðurstaðan væri að hætta rekstri vélarinnar og selja hana.

Það er á ábyrgð viðkomandi stofnunar og ráðuneytis að láta enda ná saman. Farið var ítarlega yfir það með LHG hvað hægt væri að gera til að mæta þessari stöðu. Niðurstaðan var sú að skásti kosturinn væri að hætta rekstri TF-SIF. Ástæður voru helstar þær að rekstur vélarinnar væri óhagkvæmur, hún nýttist lítið innanlands og fyrirsjáanlegt mikið og fjárfrekt viðhald og endurbætur á tækjakosti. Þá var talið hentugt á þessum tímapunkti að skipta vélinni út fyrir hagkvæmari valkost sem gæti náð settum viðmiðum í viðbragði við leit og björgun.

Björn á erfitt með að trúa því að vélin sé úrelt, aðeins fjórtan ára gömul.

Vélin er frá 2009 sem telst ekki hár aldur hjá flugvél sem er eins vel við haldið og þessari, tækjabúnaður er góður en þarfnast vafalaust uppfærslu eins og allur búnaður. Það er ekki skynsamlegt að selja þessa hugmynd ráðuneytsins með því að tala TF-SIF niður og hafa engan annan kost í stöðunni og skorta auk þess heimild frá alþingi.

Brynjar Níelsson, aðstoðarmaður Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Brynjar segir að það muni eitthvað koma í stað TF-SIF en það sé til skoðunar. Georg Lárusson nefndi í gær hugsanlegt samstarf við Ísavía sem rekur flugvél.

Brynjar endar samtalið á þessum orðum:

Þetta mál snýst ekki eingöngu um að vera innan fjárheimilda með reksturinn. Heldur einnig hagkvæmari rekstur flugvélar til að sinna eftirliti og björgun. Þetta gat er nærri 500 milljónir. Ef fjárlagavaldið vill tryggja óbreyttan rekstur vélarinnar áfram er það hið besta mál. En við erum samt þeirrar skoðunar að það þurfi að endurskoða þennan flugrekstur með hagsmuni skattgreiðenda í huga og tryggja að flugvél sé alltaf til staðar. Það hefur verið fjarri lagi í mjög langan tíma.

Líklegt er að málið verði rætt ítarlega á Alþingi á næstunni. Að minnsta kosti þarf Alþingi að taka ákvörðun um að selja flugvélina, í fjárlögum eða fjáraukalögum.