Afkoma bandaríska tæknifyrirtækisins Nvidia á fjórða ársfjórðungi - sem lauk 26. janúar 2025 - fór fram úr spám greinenda en fyrirtækið birti uppgjör eftir lokun markaða vestanhafs í gær.

Sölutekjur námu 39,3 milljörðum dala, eða sem nemur um 5.463 milljörðum króna, á fjórðungnum sem er aukning um 78% frá sama tímabili í fyrra og um einum milljarði dala umfram spár greinenda. Rekstrarhagnaður jókst um 80% og nam 22 milljörðum dala.

Nvidia spáir því að sala á yfirstandandi fjórðungi - sem lýkur í apríl - nemi 43 milljörðum dala.

Tekjuaukningin er að miklu leiti tilkomin vegna sölu á Blackwell línunni, sem leggur áherslu á nýtingu gervigreindar, sem kom á markað á fjórðungnum. Sala á Blackwell-línunni nam 11 milljörðum dala, sem er langt umfram spár greinenda sem höfðu spáð 3,5 milljarða dala sölu.

Að því er segir í frétt Wall Street Journal hefur Nvida gefið það út að framlegð muni dragast lítillega saman sökum kostnaðar vegna Blackwell-gervigreindarlínunnar, og verða um og yfir 70%. Til samanburðar nam framlegð fyrirtækisins 79% fyrir ári síðan. Er það þó talsvert betri framlegð en hjá hinum tæknirisunum vestanhafs.

Financial Times hefur það eftir Jensen Huang, forstjóra Nvidia, að gríðarleg eftirspurn hafi verið eftir Blackwell vörulínunni og ekkert lát sé þar á. Hann gaf þá lítið fyrir fullyrðingar fyrirtækja á borð við DeepSeek um að þeir gætu framleitt betri og ódýrari vörur, en bætti þó við að slíkt hafi ýtt frekar undir áhuga á tækninni á heimsvísu.

Hlutabréfaverð Nvidia hefur hækkað um 1% í viðskiptum fyrir opnun markaða í gær. Það hafði hækkað um nærri 4% í viðskiptum gærdagsins en þar áður höfðu hlutabréf Nvida lækkað sex daga í röð.

Hlutabréf Nvidia standa nú í 131,3 dölum á hlut en til samanburðar voru hlutabréfin í tæplega 150 dölum fyrir um mánuði síðan, áður en kínverska fyrirtækið DeepSeek setti allt á hliðina og hlutabréf Nvidia féllu niður í um 118 dali.

DeepSeek hafði fullyrt að þeir gætu framleitt betri gervigreindarvörur en þær sem þegar eru á markaði, og það á talsvert lægra verði. Fleiri fyrirtæki en Nvidia fundu fyrir áhrifum þessa og eru fjárfestar sagðir órólegir yfir þróun mála.