Stjórn Blaðamannafélags Íslands (BÍ) hefur ákveðið að kæra ekki Hjálmar Jónsson, fyrrum framkvæmdastjóra og formann félagsins „þrátt fyrir niðurstöðu lögfræðiálits LOGOS þar sem fram kemur að háttsemin hafi verið verulega ámælisverð og jafnvel refsiverð“. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef BÍ.

Stjórn Blaðamannafélags Íslands (BÍ) hefur ákveðið að kæra ekki Hjálmar Jónsson, fyrrum framkvæmdastjóra og formann félagsins „þrátt fyrir niðurstöðu lögfræðiálits LOGOS þar sem fram kemur að háttsemin hafi verið verulega ámælisverð og jafnvel refsiverð“. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef BÍ.

„Stjórn BÍ telur hagsmunum félagsins betur borgið með því að ljúka málinu í stað þess að halda því áfram um ótilgreindan tíma með ófyrirséðum afleiðingum og kostnaði fyrir félagið,“ segir í tilkynningunni.

„Stjórn vonast til þess að með þessari ákvörðun sé málinu endanlega lokið og að orka og athygli starfsfólks og stjórnar geti beinst að því að efla veg blaðamennsku og blaðamanna á Íslandi, félagsmönnum og faginu til heilla, því blaðamennska hefur aldrei verið mikilvægari.“

Í tilkynningunni er fjallað ítarlega um niðurstöður úttektar KPMG á tilteknum færslum í bókhaldi BÍ og lögfræðiáliti frá LOGOS sem byggði á téðri úttekt.

„Niðurstaða minnisblaðsins er sú að fyrrum framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands, Hjálmar Jónsson, gerðist að öllum líkindum sekur um refsiverða háttsemi í starfi sínu fyrir félagið.

Blaðamannafélagið segir minnisblaðið vera afdráttarlaust og að þar sé farið yfir hvernig Hjálmar sem framkvæmdastjóri félagsins hafi misnotað aðstöðu sína sem hann fékk í krafti umboðs til ráðstöfunar á fjármunum félagsins „sér í lagi hvað varðar lánveitingar hans til sjálfs sín“.

Meint brot Hjálmars eiga að hafa falist í lánveitingum sem hann veitti sjálfum sér af fjármunum félagsins án samþykkis stjórnar, greiðslu ökutækjastyrks og dagpeninga umfram heimildir og mögulega með kaupum á lausafé umfram ástæður og til persónulegra nota.

Vísað er í kafla í minnisblaðinu þar sem segir að Hjálmar hafi millifært á sjálfan sig tæpar 9,2 milljónir króna og látið færa það í bókhaldi sem fyrirframgreidd laun.

Að ráði lögmannsins óskaði stjórn BÍ eftir skýringum frá Hjálmari um ákveðin atriði sem kom fram í úttektinni. Hjálmar sendi stjórn skýringar sínar með bréfi þann 6. júní síðastliðinn.

„Stjórn fól lögmanni LOGOS að meta skýringarnar og var það niðurstaða hans að þær breyttu ekki niðurstöðu minnisblaðsins; þ.e.að háttsemi framkvæmdastjórans fyrrverandi hafi verið verulega ámælisverð og jafnvel refsiverð. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu tók stjórn BÍ ákvörðun um það á stjórnarfundi 21. júní að ljúka málinu.“