Flutningafyrirtækjum á landsbyggðinni blæðir mörgum hverjum um þessar mundir af tvennskonar orsökum. Annars vegar vegna brotthvarfs ferðamanna en að auki vegna ákvæða laga um póstþjónustu sem tóku gildi í byrjun árs 2020. Ekki sé hægt að keppa við opinbera hlutafélagið Íslandspósts sem niðurgreiði þjónustu sína með beinum fjárframlögum frá eiganda sínum.

„Ég rek tæplega fimmtíu ára gamalt flutningafyrirtæki sem heitir Auðbert og Vigfús Páll ehf., sem gerir út frá Vík í Mýrdal, og hef starfað hjá því í þrjá áratugi. Það var byggt upp sem fjölskyldufyrirtæki af mér og föður mínum en hefur síðan undið upp á sig og þjónustar nú Suðurlandið, frá Markarfljóti að Kirkjubæjarklaustri. Þar höfum við keyrt með sendingar heim að hverjum einasta sveitabæ og fyrirtæki,“ segir Vigfús Páll Auðbertsson.

„Undanfarin sjö, átta ár hefur verið mikill vöxtur enda ferðaþjónustan verið umfangsmikil á svæðinu. Núna er ferðamaðurinn horfinn, tekjufallið á síðasta ári var um 40% og allir starfsmennirnir átta eru á hlutabótum. Í slíkri aðstöðu fer maður að kafa ofan í hvar tekjur hafa lekið út og hvernig maður getur tryggt þær. Þá kom í ljós að smápakkar, sem hafa alltaf verið með í fraktinni, þeir eru bara horfnir,“ segir Vigfús Páll.

Glappaskot þingmanna

En hvers vegna hafa pakkarnir horfið og hvar eru þeir nú? Til að fá svör við því er nauðsyn að kafa eilítið ofan í lagasafnið. Sumarið 2019 voru samþykkt ný heildarlög um póstþjónustu sem tóku gildi 1. janúar 2020 og leystu þar með eldri lög af hólmi. Markmið nýju laganna er „að stuðla að hagkvæmri, virkri og áreiðanlegri póstþjónustu um land allt og til og frá landinu, m.a. með því að tryggja notendum aðgang að alþjónustu eins og hún er skilgreind á hverjum tíma og með því að efla samkeppni á markaði fyrir póstþjónustu.”

Samkvæmt eldri lögum hafði ríkið einkarétt til dreifingu bréfa og féll það hlutverk í skaut Íslandspósts. Á Póstinum hvíldi einnig skylda til að sinna alþjónustu en sú náði til dreifingar böggla, upp að 20 kílógrömmum að þyngd, í hvert einasta hús landsins. Verðlagning félagsins vegna einkaréttar og alþjónustu var síðan lögbundin en hún skyldi taka „mið af raunkostnaði við að veita þjónustu að viðbættum hæfilegum hagnaði“.

Við fyrstu sýn virðist ekki mikill munur milli eldri og yngri laga. Einkarétturinn á dreifingu bréfa hefur fallið niður og getur nú hver sem vill stofnað félag sem dreifir bréfum. Alþjónustuþröskuldurinn var lækkaður og tekur nú til böggla upp að tíu kílógrömmum og þá ber gjaldskránni enn að taka mið af raunkostnaði að viðbættum hæfilegum hagnaði. En málið er ekki svo einfalt.

Milli fyrstu og annarar umræðu frumvarpsins á þingi gerði meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar, Samfylking, Píratar og Viðreisn mynduðu minnihluta, að gera breytingu sem ætla mætti að væri minniháttar. Frumvarpið kvað á um að bréfasendingar ættu að standa landsmönnum öllum til boða á sama verði en nefndin taldi rétt að það ákvæði myndi gilda um alþjónustuna alla. Var það gert með „vísan til jafnræðis og byggðasjónarmiða“. Ætlunin var sumsé að halda landinu í byggð og styðja landsbyggðina.

Myndin sýnir breytinguna á gjaldskrá Póstsins í byrjun árs 2020. Fjallað var um breytingar á gjaldskránni í Viðskiptablaðinu í febrúar 2020 .

Þetta „eitt land, eitt verð“ ákvæði setti Póstinn í smá bobba. Stjórnendur félagsins töldu að með því að taka „meðaltalsverð“ á landið allt myndi það verðleggja sig út af markaði á höfuðborgarsvæðinu. Í staðinn var ákveðið að taka landið allt og lækka það niður á verðið fyrir höfuðborgarsvæðið. Í einhverjum tilfellum þýddi það ríflega 35% lækkun sendingarkostnaðar. Kostnaðurinn er sá sami og telur Pósturinn að eigandinn, íslenska ríkið, beri að greiða hann. Að mati Póstsins er sú tala 490 milljónir króna á ári.

Sending með Póstinum eini möguleikinn

„Eins og við vitum þá hefur orðið mikil aukning í netverslun undanfarið og þar ætti maður að hafa val um það hvernig maður fær vörur heim til sín. Staðan er hins vegar sú að maður hefur bara val um að sækja í vöruafgreiðslu, oft á höfuðborgarsvæðinu, eða fá sent með Íslandspósti,“ segir Vigfús Páll.

Máli sínu til stuðnings tekur hann dæmi úr eigin lífi. Hann hafði ætlað sér að kaupa helluborð og hafði fundið eitt álitlegt sem hann ætlaði að fá sent til sín. Þá var valmöguleikinn aðeins einn. Hann gat fengið það sent með Íslandspósti til Víkur fyrir rétt um þúsund krónur. Það vildi hann ekki og bað um að fá vöruna senda með Eimskip.

„Sá sem ég ræddi við í símann sagði við mig að hann skildi ekkert hvað ég væri að kvarta yfir einhverjum skitnum 800 krónum. Ég sagði á móti að ég ræki flutningafyrirtæki, sem væri samstarfsaðili Eimskips, og að staðan væri sú að Pósturinn væri að hafa af mér viðskipti. Sending með Póstinum, niðurgreidd af ríkinu, var samt áfram eini möguleikinn og því varð ekkert af þeim viðskiptum,“ segir Vigfús Páll og bætir við að „almenningur sem býr í Vík vildi gjarnan styrkja sín heimafyrirtæki en það er ekki í boði. Það er bara Pósturinn eða þú þegir.“

Það er ekki aðeins flutningafyrirtækjum sem blæðir heldur hefur Viðskiptablaðið heyrt sögur af því að verslanir á landsbyggðinni, í mörgum tilvikum rótgrónar verslanir, séu að lenda í basli og úrval í hillum þeirra fari minnkandi sökum þess hve auðvelt sé að fá sendingar með Póstinum.

„Þær berjast bara í bökkunum,“ segir Þórður Jónsson en sá gerir út flutningafyrirtækið Þórður ehf. á Hvolsvelli. Þaðan þjónustar hann svæðið frá í vestri að Markarfljóti í Austri. Félagið hefur hann rekið í tuttugu ár en þar áður var hann með reksturinn á eigin kennitölu.

Mat stjórnvalda að samkeppni sé engin

Undir lok síðasta árs var Íslandspóstur útnefndur alþjónustuveitandi á sviði póstþjónustu um land allt. Slíkur þjónustuveitandi getur farið fram á það við ríkið að það bæti sér óhagræði sem hlýst af því að þjónusta svokölluð „óvirk markaðssvæði“. Skilin þar á milli voru ákveðin með sömu ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar.

Niðurstaða stofnunarinnar var sú að þéttbýlisstaðir þar sem fjöldi heimila og fyrirtækja er yfir 750 skuli teljast óvirk svæði. Með öðrum orðum, samkeppni ríkir á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesi, Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Selfossi, Hveragerði og Vestmannaeyjum. Öll önnur þorp og dreifbýli skulu teljast staðir þar sem samkeppni ríkir ekki.

„Við bara göptum þegar þessi ákvörðun kom. Ég klárlega lifi og bý inn á samkeppnissvæði og er ekki einn um það. Um allt land, á Akranesi, Grundarfirði, Patreksfirði og svo mætti lengi telja, eru rótgróin fyrirtæki að verða fyrir barðinu á ákvörðunum stjórnvalda um rekstur Íslandspósts. Þetta eru til þess að gera smá fyrirtæki þar sem starfsfólkið býr á svæðunum. Þau eiga ekki möguleika á að taka þátt í samkeppni við niðurgreitt ríkisfyrirtæki,“ segir Vigfús.

„Allan þann tíma sem ég hef verið með mitt félag hef ég verið í samkeppni, jafnt við Samskip og aðra aðila sem hafa komið inn á svæðið. Þannig á það á vera, heilbrigð samkeppni. Það er ekkert mál að keppa við Íslandspóst en félagið má ekki fá þetta forskot og má ekki komast upp með það að brjóta lög,“ segir Vigfús og Þórður samsinnir honum.

„Það bara getur ekki verið að kjörnir fulltrúar, sem fá umboð sitt frá þjóðinni, geti skaffað opinberu fyrirtæki peninga bara eitthvað út í bláinn. Til hvers? Hverjar eru afleiðingarnar? Það er verið að klekkja á einkafyrirtækjum, mörgum rótgrónum, á landsbyggðinni. Það var kannski ekki vilji þeirra en það er það sem er að gerast,“ segir Þórður.

Varúðarframlag utan fjárlaga

Færð hafa verið rök fyrir því að við alþjónustuframlag síðasta árs stjórnvöld ekki gætt þess að hafa lagabókstafinn í hávegum. Greiðslum fyrir alþjónustu er til að mynda ætlað að „valda, að því marki sem unnt er, minnstu mögulegu röskun á samkeppni og eftirspurn“ og þá skal „hreinn kostnaður vegna alþjónustukvaðar greiðast úr ríkissjóði samkvæmt heimild í fjárlögum“.

Pósturinn hefur einu sinni fengið greitt fyrir alþjónustuna en það var í nóvember 2019. Þá fékk félagið 250 milljón króna bráðabirgðaframlag eftir að fyrirtækinu og PFS tókst ekki að ná saman um umfang alþjónustubyrðarinnar. Pósturinn taldi hana 490 milljónir króna en stofnunin féllst ekki á það.

Málin höfðu verið í hnút í nokkurn tíma en þann 15. nóvember 2019 funduðu Birgir Jónsson, þáverandi forstjóri, og Bjarni Jónsson, stjórnarformaður og varaþingmaður Vinstri grænna, með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Téður Bjarni og varastjórnarformaðurinn Auður Björk Guðmundsdóttir fóru sama dag á fund Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.

© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Forstjóri og stjórnarmenn Póstsins funduðu með ráðherrum til að liðka fyrir framlagi.  VB/MYND EYÞÓR ÁRNASON

„Á fundunum með forsætisráðherra og fjármálaráðherra kom fram mikil velvild í garð ÍSP og ánægja með þær aðgerðir sem gripið hefur verið til undanfarna mánuði hjá fyrirtækinu til að bæta rekstrarstöðu þess. Fram kom hjá fjármálaráðherra að eins og staðan væri, bæri að leggja inn í áætlanir ÍSP útreiknaðar stærðir þjónustusamnings eins og þær liggja fyrir og ÍSP hefur reiknað út og lagt inn í vinnu vegna þjónustusamnings. [Samgönguráðuneytið] hefur ekki í tengslum við þá vinnu lagt fram tölur eða útreikninga í aðra veru,“ stendur í fundargerðinni.

Tólf dögum síðar barst PFS bréf frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu þar sem stofnuninni var heimilað að veita Íslandspósti varúðarframlag, að fjárhæð 250 milljónir króna, vegna alþjónustubyrði Póstsins. Var sú upphæð greidd út í ársbyrjun 2020. Rétt er að geta þess að þeirrar upphæðar hefur ekki verið getið í síðustu fjár- eða fjáraukalögum heldur virðist hún hafa verið tekin af varasjóði.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma síðan að fleiri en einn aðili hafi sent, eða hafi í hyggju, að eftirlitsstjórnvöldum erindi vegna gjaldskrár Póstsins. Telja þau að þar hafi pottur verið brotinn og að gjaldskráin og samkeppnishættir hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga.

Árið 2019 tapaði Pósturinn 510 milljónum króna en EBIDTA samstæðunnar var jákvæð um 266 milljónir króna. Tap af alþjónustu var rúmlega milljarður króna, þar af var tap af sendingum innanlands ríflega hálfur milljarður króna. Tap af bréfasendingum var tæpar 88 milljónir króna. Á fyrri hluta síðasta árs heildartap 165 milljónir króna, samanborið við 256 milljónir króna árið á undan, en EBITDA fyrstu sex mánaða 2020 var jákvæð um 89 milljónir króna. Munar þar talsverðu um fyrrnefnt 250 milljón króna varúðarframlag en það var fært í bækur félagsins sem tekjur.