Fraktflugfélagið Bláfugl staðfesti í tilkynningu í morgun að fraktstarfsemi félagsins hafi verið formlega hætt í lok aprílmánaðar. Í tilkynningu Bláfugls segir að öllum flugvélum í flota félagsins verði skilað til viðkomandi leigusala.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær skilaði Bláfugl, sem hefur starfað undir nafninu Bluebird Nordc, inn íslenska flugrekstrarleyfi sínu í lok síðasta mánaðar.
Litháíska samstæðan Avia Solutions Group (ASG) keypti Bláfugl árið 2020 af BB Holding ehf. Í kjölfar kaupanna lýsti ASG yfir háleitum markmiðum um að stækka flota íslenska dótturfélagsins. Nýlega lýsti Audronė Keinytė, forstjóri Bláfugls, krefjandi rekstrarumhverfi vegna minni eftirspurnar eftir fraktflutningum hefði gert félaginu erfitt fyrir.
Bláfugl hefur einna helst sérhæft sig í svokallaðri blautleigu (e. wet lease) flugvéla þar sem áhöfn, viðhald og tryggingar fylgja með leigunni. Félagið hefur m.a. sinnt flugi fyrir flutningafyrirtæki á borð við DHL, UPS, ASL og FedEx.
Bláfugl var stofnað árið 1999 og hóf flugstarfsemi árið 2001 með íslenskt flugrekstrarleyfi. Félagið rann inn í Icelandair Group árið 2005. Íslandsbanki eignaðist flugfélagið ásamt Glitni árið 2011, sem hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandair Group. Bankinn seldi Bláfugl til BB Holding ehf. í ársbyrjun 2014.