Fraktflugfélagið Bláfugl er ekki lengur á lista Samgöngustofu yfir handhafa flugrekendaskírteina. Félagið var enn á listanum í gær.
Leiða má að líkum að Bláfugl, sem hefur starfað undir nafninu Bluebird Nordic, hafi skilað inn flugrekstrarleyfi á Íslandi í lok aprílmánaðar. Það er í samræmi við heimildir Viðskiptablaðsins.
Viðskiptablaðið fjallaði í gær um að starfsemi Bláfugls verður líklega lögð niður. Félagið hefur aflýst öllum flugferðum sínum, líkt og fréttamiðillinn ch-aviation greindi fyrst frá.
Litháíska samstæðan Avia Solutions Group keypti Bláfugl árið 2020 af BB Holding ehf. Audronė Keinytė, forstjóri Bláfugls, sagði nýlega í samtali við ch-aviation að rekstrarerfiðleika Bláfugls megi að stórum hluta rekja til minni eftirspurnar eftir fraktflutningum.
Talið er að margar vélar í flota Bláfugls verði færðar til annarra flugfélaga í samstæðu AGS, þar á meðal til slóvakíska fraktflugfélagsins AirExplore.