Áhrifafjárfestirinn Ryan Cohen, sem nýtur vinsælda meðal dagkaupamanna með jarmhlutabréf (e. meme stocks), hefur byggt upp hundruð milljóna dala hlut í kínverska tæknifyrirtækinu Alibaba Group Holding. Hann beitir sér nú fyrir því að félagið setji aukinn kraft í endurkaupaáætlun sín.

Cohen er hvað þekktastur fyrir að hafa fjárfesti í og stuðlað að mikilli hækkun á hlutabréfaverði bandarísku verslunarkeðjanna Gamestop og Bed Bath & Beyond (BBBY). Cohen, sem er stjórnarformaður Gamestop, átti um tíma yfir 10% hlut í Gamestop og BBBY.

Þó ekki sé ljóst hversu stóran hlut Cohen fer með í Alibaba, þá segja heimildarmenn Wall Street Journal að hluturinn sé hundruð milljóna dala virði. Hann eigi þó hlutfallslega lítinn hlut í kínverska félaginu sem er yfir 300 milljarðar dala að markaðsvirði.

Cohen er sagður hafa fyrst sett sig í samband við stjórn Alibaba í ágúst 2022. Hann sagðist hafa trú á að félagið gæti náð tugprósenta söluvexti og nærri 20% vexti á handbæru fé frá rekstri. Miðað við þá spá séu hlutabréf félagsins verulega undirverðlögð að hans mati.

Stjórn Alibaba tilkynnti í nóvember síðastliðnum að hún hefði samþykkt að stækka endurkaupaáætlun sína um 15 milljarða dala, upp í 40 milljarða dala, ásamt því að framlengja hana til mars 2025. Þann 16. nóvember síðastliðinn hafði félagið keypt eigin bréf fyrir 18 milljarða dala.

Heimildarmenn WSJ segja að Cohen hafi kallað eftir því að stjórnin stækki endurkaupaáætlunina um 20 milljarða dala til viðbótar.

Hlutabréfaverð Alibaba hefur hækkað um meira en 60% frá því að það náði sínu lægsta gengi í október síðastliðnum. Gengi bréfanna er þó um 60% lægra en þegar það var í hæstu hæðum í árslok 2020.

Cohen er meðstofnandi Chewy, netverslunar fyrir gæludýrafóður og annan gæludýravarning. Fyrirtækið var selt árið 2017 fyrir 3,4 milljarða dala. Auðæfi Cohen er metin á 1,8 milljarða dala samkvæmt rauntímalista Forbes.