Heimkaup ehf. og Blikk hugbúnaðarþjónusta hf. hafa undirritað samning um að verslanir Heimkaupa munu bjóða viðskiptavinum sínum upp á að greiða milliliðalaust fyrir viðskipti sín með millifærslu í Blikk-smáforritinu sem kemur út í vor.

Heimkaup ehf. og Blikk hugbúnaðarþjónusta hf. hafa undirritað samning um að verslanir Heimkaupa munu bjóða viðskiptavinum sínum upp á að greiða milliliðalaust fyrir viðskipti sín með millifærslu í Blikk-smáforritinu sem kemur út í vor.

„Ólíkt greiðslukortum þá fellur enginn kostnaður á greiðendur þar sem Blikkarar greiða hvorki árgjöld né færslugjöld en njóta engu að síður ákveðinna fríðinda sem við munum kynna innan tíðar,“ segir Bjarni Gaukur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Blikk.

Heimkaup eiga og reka verslanir undir vörumerkjum 10-11, Extra, Orkunnar og vefverslun Heimkaupa og munu þessar verslanir, auk nýrrar lágvöruverðsverslunar sem opnar í vor, bjóða upp á þessa nýjung í greiðslu.

Blikk er ný greiðsluþjónusta sem gerir viðskiptavinum kleift að greiða fyrir viðskipti sín með bankareikningsmillifærslu í rauntíma alfarið án aðkomu greiðslukorta. Blikk er fyrsta greiðslustofnun á Íslandi sem hlýtur starfsleyfi frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands sem greiðsluvirkjandi og reikningsupplýsingaþjónusta.

„Blikk gerir okkur kleift að draga mikið úr kostnaði okkar við færslugjöld og færsluhirðingu sem gerir okkur kleift að tryggja betra verð fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Birkir Karl Sigurðsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar Heimkaupa.