Bílaleigan Blue Car Rental hagnaðist um 721 milljón króna árið 2024, samanborið við 1.168 milljónir árið 2023 sem samsvarar 38% samdrætti milli ára.
Í nýbirtum ársreikningi félagsins segir að tillaga um greiðslu arðs á árinu 2025 liggi ekki fyrir. Félagið greiddi út arð að fjárhæð 1.000 milljónir á árinu 2024.
Blue Car Rental, sem er staðsett rétt við Keflavíkurflugvöll, velti 6.333 milljónum króna árið 2024, sem er um 2,7% aukning frá fyrra ári þegar bílaleigan velti 6.168 milljónum króna.
Rekstrargjöld félagsins jukust um 26% milli ára og námu 3.345 milljónum króna, samanborið við 2.647 milljónir árið áður. Mestu munar um liðinn rekstur bílaleigubifreiða sem jókst um 68% milli ára og nam 1,1 milljarði króna. Ársverk voru 92 samanborið við 90 árið 2023.
„Þrátt fyrir áskoranir á árinu gekk rekstur félagsins vel. Helstu áskoranir félagsins voru lækkandi útleiguverð og hækkandi rekstrarkostnaður. Telja stjórnendur að vel hafi gengið að vinna úr þessum áskorunum,“ segir í skýrslu stjórnar.
„Bókunarstaðan fyrir 2025 er góð. Eftir miklar sveiflur síðustu ár hefur stöðugleiki skapast á markaðnum sem stjórnendur hyggjast nýta sér til aukinnar skilvirkni með hækkun á útleiguverðum í takt við verðlagshækkanir og lágmörkun á rekstrar- og fjármagnskostnaði félagsins.“
Félagið segir að á árinu 2024 hafi verið lögð sérstök áhersla á að styrkja vörumerki Blue Car Rental á bæði innlendum og erlendum mörkuðum. Framundan sé áframhaldandi vinna því tengt sem muni styrkja stoðir sölu- og markaðsstarfs félagsins til lengri tíma. Áfram verði lögð áhersla á sölu í gegnum eigin bókunarrásir.
Aukin bílakaup framundan
Eignir bílaleigunnar voru bókfærðar á 10,3 milljarða króna í árslok 2024, þar af var bókfært verð bifreiða tæplega 7,7 milljarðar. Félagið keypti bifreiðar fyrir 2,9 milljarða í fyrra, um 22% minna en árið áður, og seldi bifreiðar fyrir tæplega 2,1 milljarð.
„Líkt og greint var frá í síðasta ársreikningi var ákveðið var að draga úr endurnýjun flotans með minni bílakaupum en undanfarin ár, til þess að halda aftur af skuldsetningu og tryggja hámarksnýtingu flotans. Framundan eru aukin bílakaup til þess að mæta aukinni eftirspurn eftir vörum félagsins og tryggja gæði.“
Bílaleigan, sem var með eigið fé upp á 2,1 milljarð í lok síðasta árs, er í 90% eigu M&G Fjárfestinga ehf., sem er í eigu hjónanna Magnúsar Sverris Þorsteinssonar og Guðrúnar Sædal Björgvinsdóttur. Þá á félagið Óskasteinn Þ&E ehf., sem er í eigu Þorsteins Þorsteinssonar og Elísu Óskar Gísladóttur, 10% hlut í Blue Car Rental.