Síðasta haust stóð Orri Hauksson á tímamótum en þá lét hann af störfum sem forstjóri Símans eftir tæp ellefu ár í starfi. „Síminn á stóran hluta í mínum starfsferli en ég starfaði einnig hjá Símanum í fjögur ár í byrjun aldarinnar,“ segir Orri en á þeim tíma var unnið að einkavæðingu fyrirtækisins. Þeirri vinnu lauk með kaupum Skipti ehf. á 98,8% hlut ríkisins í fjarskiptafélaginu árið 2005. „Eftir svo langt starf hjá Símanum held ég að það hafi verið hollt fyrir Símann og fyrir mig að ég söðlaði um,“ segir Orri.
Orri sinnti öðrum störfum frá 2007 en í nóvember 2013 tók Orri við forstjórastarfinu hjá Skiptum, sem frá einkavæðingunni 2005 var móðurfélag Símans. Þær tvær einingar voru síðan sameinaðar undir nafni Símans eftir að Orri kom þar aftur til starfa. Hann lýsir því að árið 2013 hafi félagið enn verið að vinda ofan af áhrifum fjármálahrunsins. Það hafi verið töluvert skuldsett og allt kapp lagt á að endurskipuleggja reksturinn, m.a. með breytingu skulda í hlutafé.
„Við seldum á árunum þar á eftir út mjög mikið af einingum samstæðunnar sem við töldum ekki vera kjarnastarfsemi, fækkuðum verkefnum og fólki. Að því loknu, í fyrra og í ár, hófum við að stækka samstæðuna á ný, meðal annars með fyrirtækjakaupum og ýmsum fleiri aðgerðum. Mér líst mjög vel á hvernig nýr forstjóri, María Björk Einarsdóttir, er að taka við keflinu og vinna vel með mínu gamla samstarfsfólki að framþróun félagsins. Ég er enn hluthafi í Símanum og sé áframhaldandi sígandi lukku í framtíð félagsins.“
Heimatilbúin vandamál
Beðinn um mat á stöðunni í íslensku atvinnulífi segir Orri stöðuna heilt yfir nokkuð góða. „Það eru erfiðleikar í efnahagslífi sumra landanna í Evrópu, eins og t.d. Frakklandi og Þýskalandi, og svo gæti verið í uppsiglingu einhvers konar tollastríð yfir hafið. Í samanburði við aðra stendur íslenskt atvinnulíf nokkuð vel, ekki síst þar sem heilbrigð eftirspurn er og verður eftir helstu útflutningsvörum okkar.“
Ísland standi sérlega vel að vígi í orkumálum en því miður hafi stjórnvöld vanrækt að tryggja frekari orkuframleiðslu og að orkuskortur sé orðin bein afleiðing þess. „Matvælaframleiðsla hefur þó aukist, öll þekkjum við vöxt ferðamannaiðnaðarins og að sama skapi hefur hugverkaiðnaðurinn vaxið mjög hratt. Framtíðin er því spennandi á Íslandi. Atvinnulífið hefur þurft að takast á við ytri áföll á borð við heimsfaraldur, stríðsátök í Evrópu og eldgos kringum Grindavík og Svartsengi, en hefur heilt yfir náð að komast ágætlega frá þessum áföllum.“
Mest svekkjandi séu þó heimatilbúnu vandamálin. „Það hefur verið töluverð umræða um blýhúðun Evrópureglna, sem er þarft að taka á. Hins vegar er eitt vandamál að mínu mati jafnvel enn stærra en reglurnar sjálfar. Það er hvernig innlendar stofnanir framfylgja reglunum af blýþunga, óháð umfangi reglnanna hverju sinni. Eftirlitsstofnanir hafa fengið að vera ríki í ríkinu og framfylgja þessum reglum af hentisemi og á tímaramma sem er í engu samhengi við hjartsláttinn í atvinnulífinu.“
Nánar er fjallað um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.