Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Bandaríkjunum í dag, þriðja daginn í röð, en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar bera fjárfestar vestanhafs blendnar tilfinningar til aukinnar yfirtöku bandaríska fjármálaráðuneytisins í Citigroup.

Um 1,6 milljarður hluta í Citigroup skiptu um eigendur í dag og er þetta með samkvæmt upplýsingum frá Kauphöllinni í New York.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 1%, Dow Jones um 1,7% og S&P 500 um 2,4%.

Eins og áður segir juku bandarísk yfirvöld hluta sinn í Citigroup bankasamstæðunni með 25 milljarða dala fjárinnspýtingu í samstæðuna. Með því rýrnar hlutu núverandi hluthafa um 74% en þetta er í þriðja sinn á síðustu sex mánuðum sem stjórnvöl koma samstæðunni til bjargar. Nú þegar hefur tæplega 50 milljörðum dala verið dælt inn í bankasamstæðuna.

Yfirtaka stjórnvalda á hlutabréfunum er þó háð því að hluthafar samþykki hana og kemur því ekki til framkvæmda strax. Viðmælendur Bloomberg eru þó flestir sammála um að hluthafar hafi í raun ekkert annað val en að samþykkja gjörninginn í þeirri von að bréfin hækki til langs tíma litið.

„Sagan um Citi[group] er martröð sem ætlar engan endi að taka,“ hefur Bloomberg eftir Matthew Kaufler, sérfræðing í fjármálum hjá Federated Clover Investment Advisors.

Til upprifjunar má geta þess að í lok ársins 2006 var Citigroup samstæðan metin á um tæplega 280 milljarða dala en síðan þá, eða á rúmum tveimur árum, hefur gengi hlutabréfa lækkað um 97% og er samstæðan metin á rúma 8 milljarða í dag.

Þá segir Kaufler að ekki bæti úr skák að þetta gerist á sama degi og „hræðilegar tölur,“ eins og hann orðar það um samdrátt í þjóðarframleiðslu eru birtar en í dag birti viðskiptaráðuneyti bandaríkjanna hagtölur sem sýna að hagkerfið vestanhafs dróst saman um 6,2% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs.

Eftir að tölurnar voru birtar lækkaði gengi helstu framleiðslufyrirtækja á borð við Alcoa, Beoing og fleiri.

Hráolíuverð lækkaði í dag, í fyrsta skipti í fjóra daga en við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 44,42 dali og hafði þá lækkað um tæp 1,8%.