Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hyggst skipa sérstakan starfshóp hvers hlutverk verður að skoða leiðir til rýmkunar ákvæða laga er varða útgáfu dvalarleyfa á grundvelli atvinnuþátttöku, og auka skilvirkni með einföldun ferla.
Hópurinn mun sérstaklega skoða málefni þeirra sem hafa ríkisfang utan EES-svæðisins, en það hefur hingað til verið einstaklega torsótt fyrir þann hóp að afla sér atvinnuréttinda hér á landi. Fyrirséð er að hlutdeild útlendinga á íslenskum vinnumarkaði þurfi að aukast á næstu árum, ætli þjóðin að standa undir væntum hagvexti. Þá skiptir máli að bæta það ferli sem innflytjendur ganga í gegnum til að fá réttindi og menntun viðurkennda hér á landi.
Óaðlaðandi fyrir frumkvöðla
Í skýrslu OECD um samanburð á aðdráttarafli OECD ríkja fyrir hæfileikaríkt starfsfólk, standa löndin misvel að vígi. Mælikvarðinn á innflytjendastefnu fyrir frumkvöðla byggir á tveimur skilyrðum, annars vegar skilyrði um lágmarks fjárfestingu í ríkinu og hins vegar um lágmarksfjölda starfa sem verða til við starfsemi frumkvöðulsins í ríkinu. Ísland var tekið með í öðrum mælikvörðum samanburðarsins, en ekki þegar aðdráttarafl fyrir frumkvöðla var mælt. Það orsakast af því að Ísland býður ekki upp á svokallaða start- up áritun, en slík áritun krefst ákveðinnar lágmarksfjárfestingar í ríkinu og lágmarks fjölda starfa sem verða til vegna starfseminnar. Þá er tímabundið atvinnuleyfi á Íslandi einnig skilyrt við starf hjá tilteknum atvinnurekanda.
Í Kanada, sem er í efsta sæti þegar kemur að aðdráttarafli fyrir frumkvöðla hjá OECD, getur fólk komið til landsins á slíkri áritun ef það fjárfestir í landinu fyrir 30 milljónir íslenskra króna. Slíkt fyrirkomulag er algengt og þykir upphæðin í Kanada vera nokkuð lág miðað við mörg önnur lönd. Aftur á móti stendur Ísland betur þegar kemur að öðrum mælikvörðum á aðdráttarafl ríkja fyrir hæfileikaríkt starfsfólk og situr í 13. sæti fyrir fólk með meistara- eða doktorsgráðu og í sama sæti fyrir erlenda háskólanema.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 15. desember.