Samninganefnd Eflingar hefur ákveðið að boða ekki til verkfallsaðgerða í ræstingu, öryggisgæslu og á hótelum sem samþykktar voru í byrjun vikunnar. Aðrar verkfallsaðgerðir halda þó áfram með óbreyttum hætti, að því er kemur fram í tilkynningu á vef Eflingar.
„Með verkbanni hafa Samtök atvinnulífsins fært kjaradeiluna að ystu mörkum stigmögnunar, langt umfram afmarkaðar verkfallsaðgerðir Eflingarfélaga,“ segir í tilkynningu Eflingar.
„Í ljósi þessa er nauðsynlegt að endurmeta stefnuna og telur samninganefnd ekki rétt á þessum tímapunkti að félagið efni til frekari stigmögnunar verkfallsaðgerða.“
Umræddar verkfallsaðgerðir sem hætt hefur verið við „að svo stöddu“ áttu að ná m.a. til hótelkeðjanna Centerhotels og Keahótels, Securitas og Öryggismiðstöðvar Íslands auk ræstingafyrirtækja á borð við Sólar og Daga.
SA greindi í gær frá því að Efling hefði ekki skilað inn tilkynningu til sín eða Ríkissáttasemjara með lögbundnum sjö sólarhringa fyrirvara. Því þarf að boða til atkvæðagreiðslu á ný ef grípa á til verkfalla á þessum vinnustöðum.
Líkt og fyrr segir þá munu yfirstandandi verkfallsaðgerðir Eflingar halda áfram með óbreyttum hætti. Þau verkföll ná til félagsmanna Eflingar hjá Íslandshótelum, Berjaya Hotels, Reykjavík Edition, Samskipum, Skeljungi og Olíudreifingu.
Aðildarfyrirtæki SA samþykktu verkbann á félagsmenn Eflingar með yfirgnæfandi meirihluta í atkvæðagreiðslu sem lauk í gær. Að óbreyttu tekur verkbannið gildi á fimmtudaginn í næstu viku, 2. mars.
Efling hefur lýst því yfir að félagsmenn sínir muni ekki fá greitt úr vinnudeilusjóði stéttarfélagsins í verkbanni.