Samfylkingin hefur á undanförnum mánuðum kynnt þrjú útspil um stefnur í stórum málaflokkum. Alls fela þau í sér aukin rekstrarútgjöld ríkisins upp á tæplega 1,75% af vergri landsframleiðslu (VLF), að því er kemur fram í bæklingi flokksins um framkvæmdaplan í húsnæðis- og kjaramálum.

Sé miðað við verga landsframleiðslu í fyrra, sem er áætluð um 4.321 milljarð króna samkvæmt Hagstofunni, þá fela aðgerðir Samfylkingarinnar í sér útgjaldaaukningu sem nemur rétt yfir 75 milljörðum króna.

Þess má einnig geta að útgjöld ríkissjóðs í fyrra voru 33,1% af VLF, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Samfylkingin segir að þessar aðgerðaáætlanir verði fjármagnaðar með tekjum af aukinni verðmætasköpun, almennum auðlindagjöldum, hækkun fjármagnstekjuskatts og aðgerðum til að skrúfa fyrir skattaglufur.

Þessi þrjú útspil – í fyrsta lagi í heilbrigðis- og öldrunarmálum, í öðru lagi í atvinnu- og samgöngumálum og í þriðja lagi í húsnæðis- og kjaramálum – verði því hlutlaus með tilliti til fjármála, samkvæmt flokknum.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, kynnti í gær útspil flokksins í húsnæðis- og kjaramálum á planinu við Bónus á Egilsstöðum. Fram kemur að umrætt framkvæmdaplan feli í sér aukin rekstrarútgjöld upp á um 0,5% af VLF., einkum vegna stuðningsaðgerða fyrir ellilífeyrisþega, barnafólk og öryrkja.

„Þau [útgjöldin í nýjasta framkvæmdaplaninu] eru áætluð um 0,5% af vergri landsframleiðslu þegar aðgerðirnar eru að fullu komnar til framkvæmda en þær verða tímasettar með tilliti til hagsveiflunnar í samræmi við áherslu Samfylkingarinnar á verðstöðugleika og lága vexti,“ segir í bæklingnum.

Útilokar ekki að hækka tekjuskatt

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær, þá leggur Samfylkingin til að fjármagnstekjuskatturinn verði hækkaður úr 22% í 25% samhliða því að frítekjumark vaxtatekna verði uppfært með hliðsjón af verðbólguþróun svo skattbyrði millitekjuhópa haldist óbreytt.

Kristrún ræddi um nálgun hennar til skattamála í hlaðvarpinu Brotkast, sem Frosti Logason stýrir, í lok ágúst sl. Þar sagði hún að það væru stórir skattstofnar sem þurfa „mjög litla hreyfingu til að skila mjög miklu til að loka stóru gati“.

Spurð hvaða skattstofnar það séu helst, svaraði Kristrún á þann veg að tekjuskatturinn sé langstærsti einstaki skattstofn ríkisins. Hún útilokaði ekki að tekjuskattur yrði hækkaður ef hún kæmist í ríkisstjórn en bætti við:

„Það væri aldrei fyrsta skref hjá mér. Fyrsta skref væri alltaf að fara í sanngjarna auðlindarentugjöld, við höfum sett fram stefnu í því. Fara í að leiðrétta rétta muninn í fjármagnstekjuskattinn.“

Frosti spurði þá Kristrúnu hvað hækka þyrfti fjármagnstekjuskattinn mikið svo að það skipti máli fyrir ríkissjóð.

„Ég meina, það fer eftir hvernig verðbólgan og vextir hreyfast,“ svaraði Kristrún. „En segjum sem svo að þú myndir hækka hann um 2 prósent, hann er kannski að skila þér 8 milljörðum. Þetta eru ekki það háar upphæðir.“

Kristrún sagði á öðrum tímapunkti í hlaðvarpinu að hjá því verði ekki komist að eiga heiðarlega umræðu um að skattar séu í eðli sínu hagstjórnartæki.

„Alveg eins og þú ert í dag, segjum sem svo að þú værir að borga 200 þúsund krónur á ári meiri út af vaxtahækkunum. Þú einhvern veginn sættir þig við það vegna þess að það er einhver maður í einhverju húsi í Seðlabankanum sem tekur þá ákvörðun. En ef ég myndi segja: „Frosti, ég ætla að hækka skatta á þig um 200 þúsund“ þá er ég ömurleg og ógeðslega ósanngjörn.

Punkturinn minn er að ég er ekki að segja að mig langi til að hækka skatta á þig. Það sem ég er bara að segja er að skattar eru hagstjórnartæki alveg eins og vextir eru hagstjórnartæki.“

Munurinn á milli ríkisfjármálanna og peningastefnunnar sé að í tilviki ríkisins eru pólitískt kjörnir aðilar sem geta metið hverjir hafi svigrúm til að taka á sig auknar byrðar í krefjandi aðstæðum og hvaða hópa þurfi sérstaklega að passa upp á.

„Á meðan að vextir eru þannig að það borga þá allir sem skulda, oftast fólkið í viðkvæmustu stöðunum og þetta elur á miklum ójöfnuði.“