Laxeldisfyrirtækið Kaldvík hefur boðað til hluthafafundar í gegnum Teams þann 28. janúar síðastliðinn þar sem kjósa á nýjan stjórnarmann.
Fundurinn er boðaður viku eftir að Aðalsteinn Ingólfsson, forstjóri Skinneyjar-Þinganess, lét af stjórnarstörfum hjá félaginu vegna ákvörðunar þriggja stjórnarmanna félagsins í síðasta mánuði um að stefnt skuli að kaupum á öllu hlutafé í Mossa ehf. og Djúpskel ehf. og 33,3% hlutafjár Búlandstinds ehf.
Í tilkynningu Kaldvíkur til Kauphallarinnar segi að til að tyggja að samsetning stjórnarinnar sé í samræmi við norsk lög um einkahlutafélög. Fram kemur að Austur Holding, stærsti hluthafi Kaldvíkur með 55% hlut, sé að meta nokkra kandídata til að taka sæti Aðalsteins í stjórninni.
Aðalsteinn sendi frá sér yfirlýsingu samhliða því að hann lét af stjórnarstörfum hjá félaginu á þriðjudaginn í síðustu viku. Þar gagnrýndi hann m.a. hátt verð í ofangreindum viðskiptum auk þess að stærsti hluti kaupverðsins væri greiddur með nýútgefnu hlutafé á gengi sem sé nokkuð undir verðmatsgengi greiningaraðila.
Aðalsteinn sagðist telja út frá þessu að Heimsto AS, stærsti hluthafi Austurs og eigandi Mossa ehf., sé að hagnast með óeðlilegum hætti á kostnað annarra hluthafa Kaldvíkur.
„Um hafi verið að ræða sjálfsafgreiðsluviðskipti, en tveir af þeim þremur stjórnarmönnum sem greiddu atkvæði með viðskiptunum eru forstjóri Heimsto og fjármálastjóri. Ég greiddi atkvæði gegn þessum viðskiptum og einn stjórnarmaður sat hjá. Stjórnarformaður neitaði að upplýsa um afstöðu mína í tilkynningu félagsins til kauphallar.“
Aðalsteinn sagði jafnframt að ekki hafi verið tekið tillit að neinu leyti til ítrekaðra athugasemda af hans hálfu um viðskiptum. Hann hafi í kjölfarið skrifað ytri endurskoðendum félagsins bréf um málið.
„Ég hef óskað eftir því að viðskiptin verði rannsökuð sérstaklega, m.a. með hliðsjón af ákvæðum hlutafélagalaga, sem fjalla um viðskipti við tengda aðila og skyldu stjórnarmanna til að gæta hagsmuna allra hluthafa félagsins,“ sagði Aðalsteinn.
Kaldvík, sem hét áður Ice Fish Farm, var tvískráð á íslenska First North-markaðinn í maí síðastliðnum en félagið er með aðalskráningu á Euronext-markaðnum í Noregi.