Frönsk stjórnvöld hyggjast framkvæma verðlagseftirlit hjá yfir 10 þúsund hótelum og veitingastöðum víðs vegar í Frakklandi í aðdraganda Ólympíuleikanna í París sem fara fram næsta sumar. Bloomberg greinir frá.

Ferðamálaráðherra Frakklands, Olivia Gregoire, tilkynnti í dag að fylgst verður með verðlagi hjá öllum 1.600 hótelum í frönsku höfuðborginni. Samkeppnis- og neytendastofnun Frakklands mun annast framkvæmdina og hefur stofnunin þegar athugað verðlag hjá 600 rekstraraðilum.

Ólympíuleikarnir í París hefjast 26. júlí næstkomandi og lýkur 11. ágúst 2024. Ólympíuleikar fatlaðra fara síðan fram frá 28. ágúst til 8. september. Áætlað er að allt að 16 milljónir manns heimsæki höfuðborgarsvæðið frá júlí til september 2024.

Franskir fjölmiðlar greindu frá því í síðasta mánuði að ferðamálastofa Parísar hefði orðið var við 314% verðhækkun á gistinóttum á hótelum dagana sem Ólympíuleikarnir fara fram. Þannig hafi meðalverð á einnar nætur dvöl hækkað úr 169 evrum, eða um 25 þúsund krónum, í júlí 2023 í 699 evrur, eða um 105 þúsund krónur, ári síðar.

Hótelum í Frakklandi er frjálst að ákvarða eigin verð og verða ekki bundin verðþaki á meðan leikarnir standa yfir. Frönsk stjórnvöld vonast hins vegar eftir að verðlagseftirlitið koma að einhverju leyti í veg fyrir umtalsverðar verðhækkanir.

Ferðamálaráðherrann varaði þó rekstraraðila við sektum ef þeir fylgja ekki lögum og reglum, líkt og að verð skuli vera vel auglýst og að endanlegt verð samræmist því sem auglýst var.