Verkfæraframleiðandinn Stanley Black & Decker hefur neyðst til að hækka verð á vörum sínum og boðar frekari hækkanir síðar á árinu til að vega upp á móti þeim áhrifum sem nýlagðir tollar munu hafa á fyrirtækið. Þá mun félagið ráðast í breytingar í aðfangakeðjunni svo það verði ekki eins háð Kína á næstu tveimur árum.

Á vef WSJ segir að framkvæmdastjórn félagsins, sem framleiðir meðal annars DeWalt-verkfæri og Craftsman-skiptilykla, búist við verri afkomu vegna óvissunnar en hagnaður á hlut á ársgrundvelli muni skerðast um 75 sent. Samkvæmt afkomuspá félagsins er áætlað að hagnaður fyrir árið nemi 3,15-3,45 dölum á hlut.

Samkvæmt frétt WSJ hefur fyrirtækið þegar hækkað verð á öllum verkfærum í Bandaríkjunum í þessum mánuði og gert er ráð fyrir meiri hækkunum í byrjun þriðja ársfjórðungs. Viðskiptavinum hafi þegar verið tilkynnt um hækkanirnar.