Bankasýsla ríkisins lýsir yfir miklum vonbrigðum með vinnubrögð Íslandsbanka við útboð á 22,5% eignarhlut ríkisins í bankanum þann 22. mars 2022 í ljósi þess sem fram kemur í nýgerðri sátt bankans við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni.
Þá segir í tilkynningunni að Bankasýslan hafi ákveðið að fara fram á að boðað verði til hluthafafundar í Íslandsbanka „þar sem stjórn og stjórnendur bankans geri grein fyrir málinu og þeim ráðstöfunum sem gripið verður til í því skyni að endurvekja traust."
Bankasýslan líti málið alvarlegum augum, en stofnunin fer enn með 42,5% eignarhlut í bankanum.
„Íslandsbanki hefur með sáttinni gengist við því að hafa gerst brotlegur við ákvæði laga um markaði fyrir fjármálagerninga og laga um fjármálafyrirtæki og er ljóst að misbrestur á fylgni bankans við lög og reglur er til þess fallinn að rýra traust almennings til fjármálafyrirtækja. Bankasýslan lítur málið alvarlegum augum, en stofnunin fer enn með 42,5 % eignarhlut í Íslandsbanka og verulega hagsmuni ríkisins í öðrum fjármálafyrirtækjum."