Félags- og vinnumarkaðsráðherra vinnur ásamt fjármála- og efnahagsráðherra að gerð frumvarps til stuðnings launafólks í Grindavík en jarðhræringar á svæðinu hafa haft gríðarleg áhrif á starfsemi fyrirtækja og þar með afkomuöryggi starfsfólks.
Stefnt er á að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi sem fyrst en samkvæmt því munu laun starfsfólks að hluta verða greidd úr ríkissjóði tímabundið til þess að koma til móts við atvinnurekendur. Aðgerðirnar munu taka mið af stuðningsaðgerðum sem gripið var til í Covid-19.
Samtök atvinnulífsins boðuðu til upplýsingafundar fyrir forsvarsmenn fyrirtækja á mánudag en ljóst er að mikil óvissa er til staðar. Þó að fyrirtæki séu tryggð að ákveðnu leyti vegna náttúruhamfara eru þau til að mynda ekki tryggð vegna rekstrarstöðvunar.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, segir forgangsmál að koma í veg fyrir óvissu launafólks. Spurður hvort ríkisstjórnin hafi skoðað aðgerðir til að styðja við fyrirtækin beint, líkt og gert var í faraldrinum með lokunarstyrkjum meðal annars, segir ráðherrann að þau séu ekki komið það langt.
„Það sem við erum að skoða núna snýr í rauninni að því að aðstoða fyrirtækin við að borga laun. Það er forgangsatriðið núna, við erum ekki komin á þann stað að vera farin að skoða eitthvað sem að snýr almennt að rekstri fyrirtækjanna eða slíkt, nema það sem að snýr að launakostnaðinum,“ segir Guðmundur Ingi en hann slær slíkt ekki alveg út af borðinu.
„Ég hugsa að það verði bara tekið til skoðunar ef slíkar beiðnir koma. Þetta eru mjög óvenjulegar aðstæður og hugur allra landsmanna er hjá fólkinu.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.