Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hyggst leggja fram nýtt frumvarp um söluferlið á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka áður en næsta söluumferð fer fram. Áfram er stefnt að almennu útboði en nánari útfærsla á söluferlinu er í vinnslu.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Daða Más við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.
Gefur ekki upp hvaða breytingar eru áformaðar
Spurður um hvenær stefnt sé að næsta sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka, segir Daði að lagasetning um söluferlið sé í undirbúningi.
„Lögin þurfa að fara fyrir þingið og fá sína þinglegu meðferð. Þegar því ferli lýkur er hægt að taka ákvarðanir um það hvenær selt verður.“
Síðasta ríkisstjórn hafði áformað almennt útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka á síðasta ári en sölunni var slegið á frest eftir að Bjarni Benediktsson, fyrrverandi forsætisráðherra, ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu í október.
Þingið hafði samþykkt lög um ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf. í júní síðastliðnum. Lögin kveða á um að hlutur ríkisins í bankanum verði seldur í markaðssettu útboði eða útboðum.
Spurður hvers vegna þörf sé á nýjum lögum um söluferlið í ljósi þess að þingið samþykkti lög um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka síðasta sumar segir Daði Már:
„Á þessu stigi máls er ekki unnt að tjá sig að öðru leyti en því að í undirbúningi eru breytingar á gildandi lögum sem snúa að því að tryggja enn betur árangursríkt útboð.“
Daði Már sagði í Silfrinu í gærkvöldi að stefnt sé að því að næsta sala ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka fari fram í ár. Hann tók jafnframt að söluferlið yrði kynnt í þinginu á vormánuðum.
Ríkissjóður á 42,5% hlut í Íslandsbanka sem er um 106,7 milljarðar króna að markaðsvirði. Ríkissjóður seldi 35% hlut í bankanum fyrir 55 milljarðar króna með almennu hlutafjárútboði sumarið 2021 og 22,5% hlut fyrir 52,7 milljarða í lokuðu útboði með tilboðsfyrirkomulagi í mars 2022.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið ákvað síðasta sumar að ganga til samninga við þrjá aðila, Barclays, Citi og Kviku, um að vera umsjónaraðilar í fyrirhuguðu útboði ríkisins á hlutum í Íslandsbanka. Þá samdi ráðuneytið við fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans um að vera sjálfstæður fjármálaráðgjafi til að veita ráðuneytinu ráðgjöf varðandi skipulagningu og yfirumsjón á fyrirhuguðum útboðum á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka.
Daði Már segir að undirbúningur á söluferlinu sé unninn með innlendum og erlendum aðilum sem annast munu útboðið þegar þar að kemur.