Atvinnuvegaráðherra stefnir að því að leggja fram frumvarp til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu á haustþingi, að því er kemur fram í samráðsgátt stjórnvalda.
Frumvarp sama efnis var lagt fram af Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, í febrúar 2024 en náði ekki fram að ganga.
Árið 2021 skipaði Katrín starfshóp með fulltrúum sex ráðuneyta til að vinna að frumvarpi til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila. Í kjölfar þeirrar vinnu birti forsætisráðuneytið drög að frumvarpi í samráðsgátt haustið 2022.
„Ástæða þess að farið var í þessa vinnu var annars vegar sú að víða í nágrannaríkum Íslands hefur nýverið verið sett slík löggjöf, í ljósi þróunar í alþjóðamálum, og hins vegar að gildandi lög nr. 34/1991, um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, sem fela í sér ákveðnar takmarkanir á erlendri fjárfestingu og rýni, eru um margt veikburða og skortir fyrirsjáanleika, skýrar málsferðferðarreglur og valdheimildir,“ segir í samráðsgáttinni.
Bent er á að ýmsar athugasemdir bárust, m.a. frá fulltrúum atvinnulífsins þar sem gerðar athugasemdir t.d. við tímalengd rýni, að skilgreining á þeim sviðum sem háð eru rýni væri of víðfeðm og að fasteignakaup sem féllu undir rýniskyldu væru þegar leyfisskyld samkvæmt öðrum lögum.
Áformin mættu verulegri gagnrýni, meðal annars úr íslenska sprota- og nýsköpunarsamfélaginu. SA og aðildarsamtök þeirra gagnrýndu í umsögn við frumvarp forsætisráðherra að gildissvið fyrirhugaðra laga væri óskýrt og of víðtækt, sem eitt og sér gæti haft mjög hamlandi og þar með neikvæð áhrif á erlenda fjárfestingu í landinu að mati samtakanna.
Arion banka sagðist í umsögn við frumvarp forsætisráðherra telja að það væri til þess fallið að draga úr samkeppnishæfni Íslands með tilheyrandi áhrifum á nýsköpun, umsvif í atvinnulífinu og hagvöxt. Bankinn varaði þannig við erlend fjárfesting í tilteknum atvinnugreinum yrði undiropin tvöföldu samþykktarferli.
Í áformaskjali atvinnuvegaráðherra segir að gæta verði að með slíkri löggjöf séu ekki settar óþarfa hindranir eða flækjustig sem dragi úr eftirsóknarverðri erlendri fjárfestingu. Erlendar nýfjárfestingar séu mikilvægar fyrir fjölbreytni í íslensku efnahagslífi og verðmætasköpun í landinu.