Á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins kynntu fulltrúar 10 opinberra aðila að fyrirhugaðar verklegar framkvæmdir á þeirra vegum myndu nema samtals 79 milljörðum íslenskra króna.
Útboðsþingið var haldið í Háteig á Grand Hótel Reykjavík síðastliðinn föstudag, og sóttu hátt í 200 manns þingið, og var fullt út úr dyrum að því er segir á heimasíðu SI , en þar er jafnframt hægt að sjá myndir af þinginu. Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI var fundarstjóri útboðsþingsins.
Um nokkuð minna umfang framkvæmda er að ræða en kynnt hefur verið á útboðsþingum síðustu ára, árið 2017 voru boðaðar framkvæmdir fyrir um 90,5 milljarða. Árið 216 voru boðaðar framkvæmdir fyrir um 100 milljarða, sem var veruleg aukning frá árinu á undan.
Fyrirhugaðar framkvæmdir opinberra aðila sem kynntar voru á þinginu:
- Reykjavíkurborg - 18 milljarðar króna
- OR Veitur - 6,9 milljarðar króna
- Orka náttúrunnar - 4,31 milljarðar króna
- Landsvirkjun - 8,6 milljarðar króna
- Landsnet - 9 milljarðar króna
- Framkvæmdasýsla ríkisins - 12,9 milljarðar króna
- Faxaflóahafnir - 2,12 milljarðar króna
- Kópavogsbær - 3,72 milljarðar króna
- ISAVIA - 2,5 milljarðar króna
- Vegagerðin - 11 milljarðar króna