Fjárfestingarfélagið Eldridge Industries, sem Todd Boehly stýrir, hyggst setja á fót nýtt eignastýringafélag í byrjun næsta árs. Stefnt er að því að félagið verði með eignir upp á 74 milljarða dala í stýringu við stofnun.
Todd Boehly, stjórnarformaður og einn aðaleigenda enska knattspyrnufélagsins Chelsea, verður formaður framkvæmdaráðs félagsins.
Starfsemi hins nýja félags verður tvískipt, annars vegar fjárfestingararmur sem mun m.a. leggja áherslu á fyrirtækja- og fasteignalán, og íþrótta-, fjölmiðla- og afþreyingariðnaðinn.
Hins vegar mun félagið starfa á tryggingamarkaði með svokölluðu „insurance platform“ sem verður stutt af líftryggingarfélaginu Everly Life og Security Benefit, sem starfar á bandaríska lífeyrismarkaðnum, en félögin tvö eru bæði í eigu Eldridge.
Fram kemur að Eldridge verði með skrifstofur í New York, Greenwich, Beverly Hills, Chicago, Dallas, Atlanta, Overland Park, Des Moines, Topeka, London og Abú Dabí.
Í viðtali við Bloomberg TV sagði Boehly að fyrirtækið sé einnig að horfa í auknum mæli til Sádi-Arabíu. Þar séu stór fjárfestingartækifæri, ekki síst vegna mikillar innviðafjárfestingar, en einnig séu þar tækifæri til þróa áfram íþróttir og aðra afþreyingu á svæðinu.
Í umfjöllun Bloomberg segir að Boehly sé þekktur fyrir þátt sinn í að byggja upp eignastýringaeiningu innan Guggenheim Partners sem er í dag með yfir 200 milljarða dala í stýringu. Auðæfi Todd Boehly eru metin á 8,5 milljarða dala samkvæmt rauntímalista Forbes.