Boeing hefur ákveðið að fjölga óvæntum öryggisskoðunum í verksmiðjunum sínum sem hluti af víðtækari áætlun til að koma í veg fyrir framleiðsluvandamál eins og þau sem hrjáðu flugvél Alaska Airlines fyrir ári síðan.

Flugvélaframleiðandinn sagði í dag að á undanförnum mánuðum væri búið að taka tugi skrefa til að takast á við gæðavandamál innan fyrirtækisins en Boeing hefur verið undir rannsókn flugmálayfirvalda.

Boeing hóf þá framleiðslu á 737-vélum á ný í verksmiðju sinni í desember eftir nokkurra mánaða töf. Fyrirtækið hefur þá einnig framleitt mun færri 737 MAX-vélar í hverjum mánuði en mánuðina fyrir slysið með Alaska Airlines.

Meðal nýrra verklagsreglna er aukið gæðaeftirlit af handahófi þar sem íhlutir eru fjarlægðir og síðan settir aftur í vélina. Aðrar ráðstafanir fela í sér skoðun á skrokk flugvélarinnar og tryggingu um trúnað fyrir starfsmenn sem tilkynna um vandamál í framleiðslu.