Boeing mun fjárfesta fyrir einn milljarð dala í verksmiðju sinni í Suður-Karólínu til að auka framleiðslu á 787 Dreamliner-þotum. Flugvélaframleiðandinn sagði fyrir helgi að kostnaðurinn færi í að stækka verksmiðjuna og að uppfæra innviði.
Búist er við því að fjármögnunin muni skapa 500 ný störf á næstu fimm árum en Boeing ítrekaði markmið sitt að framleiða tíu Dreamliner-vélar á mánuði árið 2026.
Fyrirtækið hefur lengi átt í erfiðleikum með að auka framleiðslu á 787-vélum sínum en afhending nýrra flugvéla var að mestu leyti stöðvuð í tvö ár. Fyrr á þessu ári voru flugvélarnar látnar sæta ýmiss konar rannsóknum frá eftirlitsaðilum sem höfðu áhyggjur af öryggisatriðum.
Starfsmenn voru meðal annars ásakaðir um að falsa gögn og var það mál aðeins eitt af mörgum sem hafa hrjáð Boeing undanfarin misseri.