Bandarísk stjórnvöld ákváðu í síðustu viku að veita Boeing það verkefni að smíða næstu kynslóð herþota fyrir bandaríska flugherinn. Ákvörðun Pentagon kom mörgum á Wall Street á óvart en búist var við því að Lockheed Martin yrði fyrir valinu.
Ákvörðunin olli vonbrigðum fyrir Lockeed en reyndist mjög jákvæð fyrir Boeing, sem hefur verið að reyna að rífa sig upp eftir röð vandamála undanfarin ár.
Samningurinn, sem gæti numið meira en 50 milljörðum dala, mun einnig tryggja flugvélaframleiðandanum hagnað í gegnum þróunarstig verkefnisins.
Það mun reynast Boeing vel þar sem rúmlega þriðjungur af tekjum þess kemur frá varnarmálastarfsemi en félagið hefur tapað milljörðum dala á undanförnum árum.
Nýjasta orrustuþotan, sem ber heitið F-47, er hönnuð til að berjast við dróna og mun þar að auki hafa langdræga laumuskotgetu. Bandaríski flugherinn segir að slík tegund orrustuþota verði mikilvæg til að halda kínverska flughernum í skefjum á komandi árum.