Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur ákveðið að gefa milljón dali í vígslusjóð Donalds Trumps, verðandi forseta Bandaríkjanna. Fyrirtækið hefur veitt svipuð framlög til síðustu þriggja forseta.

Á vef BBC kemur fram að Google hafi einnig staðfest svipað framlag ásamt Chevron, Meta, Amazon og Uber.

„Við erum ánægð með að halda áfram þeirri hefð hjá Boeing að styðja við vígslunefndir Bandaríkjaforseta,“ segir í tilkynningu frá Boeing.

Fyrirtækið vinnur nú að því að ná sér eftir öryggis- og gæðaeftirlitskreppu sem hefur haft gríðarleg áhrif á orðspor Boeing og framleiðslu nýrra flugvéla. Boeing er einnig að vinna að því að smíða næstu forsetaflugvél, Air Force One, sem verður tekin í notkun á næsta ári.