Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing tapaði 3,5 milljörðum dala á síðasta ári, eða sem nemur 506 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Þetta kemur fram í grein hjá Reuters.

Í fyrsta skipti frá árinu 2018 náði félagið fram jákvæðu sjóðstreymi á árinu, upp á 2,3 milljarða dala. Það skýrist einkum af góðri afkomu vegna vöruflutninga, að því er kemur fram í greininni. Sjóðstreymið var jákvætt um 3,1 milljarða dala á fjórða ársfjórðungi, 600 milljónir dala meira en félagið spáði fyrir um.

Velta og hagnaður Boeing á fjórða ársfjórðungi var undir væntingum markaðsaðila. Hlutabréfaverð Boeing hefur lækkað um 2,6% í utanþingsviðskiptum.