Icelandair segir verulega styrkingu íslensku krónunnar að undanförnu hafa neikvæð áhrif á samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar, til viðbótar við takmarkaða fjárfestingu íslenskra stjórnvalda í markaðssetningu Íslands.

„Raungengi íslensku krónunnar er nú nálægt sögulegu hámarki. Sagan sýnir að þessi staða er ósjálfbær og mikil áskorun fyrir útflutningsgreinar þjóðarinnar,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í uppgjörstilkynningu flugfélagsins.

„Þess vegna er nauðsynlegt að efnahagsstefna stjórnvalda endurspegli þennan veruleika, ekki síst í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa tilkynnt áform um að auka skattlagningu á ferðaþjónustu.“

Kostaði flugfélagið 1,5 milljarða á fjórðungnum

Rekstrarhagnaður (EBIT) flugfélagsins nam 775 þúsund dala á fjórðungnum, eða tæplega hundrað milljónum króna, samanborið við 3,3 milljónir dala á sama tímabili í fyrra. Rekstrarafkoman var talsvert undir spá greiningarfyrirtækisins Akkurs sem hafði spáð 25 milljóna EBIT-hagnaði á fjórðungnum.

Icelandair áætlar að neikvæð áhrif af styrkingu íslensku krónunnar á EBIT-hagnað félagsins á öðrum ársfjórðungi hafi verið um 12,6 milljónir dala, eða um 1,5 milljarðar króna.

Icelandair bendir á að krónan hafi styrkst verulega síðan í fyrra eða um 5% á móti evru og 11% miðað við gengi á Bandaríkjadal þann 14. júlí síðastliðinn. Á sama tíma hafi verðbólgan á Íslandi reynst þrálátari en annars staðar.

„Vegna þessa er raungengi krónunnar nú nálægt sögulegum hæðum sem sagan hefur sýnt að sé ósjálfbært og mikil áskorun fyrir útflutningsgreinar þjóðarinnar,“ segir í uppgjörstilkynningunni.

Þrýstingur á meðalfargjöld á Atlantshafsmarkaðnum

Auk neikvæðra áhrifa af styrkingu krónunnar þá segir flugfélagið að á markaðnum yfir hafið hafi staðan í alþjóðamálum, tollar og efnahagslegur samdráttur haft áhrif á tekjur á hvern seldan sætiskílómetra (e. yield) af Economy fargjöldum þar sem Icelandair á mikið undir í sinni starfsemi.

„Ólíklegt er að breytingar verði í heildarframboði á þessum markaði til skemmri tíma og heldur Icelandair því áfram að aðlaga framboð sitt til að tryggja arðsemi.“

Samdráttur í framboði til og frá Íslands framundan

Icelandair segir að framundan sé samdráttur í framboði til og frá Íslandi þar sem gert sé ráð fyrir að heildarframboð muni dragast saman um ríflega 5% það sem eftir er ársins, í samanburði við 4% aukningu í öðrum ársfjórðungi „þar sem önnur flugfélög halda áfram að minnka framboð sitt eða hætta rekstri á ákveðnum mörkuðum“.

„Icelandair vinnur að markvissri aðlögun á framboði sínu að þessum breytingum, sem gert er ráð fyrir að styrki bæði tekjur á hvern seldan sætiskílómetra (e. yield) og stöðu Icelandair á lykilmörkuðum.“

Flugáætlun Icelandair á seinni helmingi ársins verður um 6% umfangsmeiri en á sama tíma í fyrra. Flugfélagið segir að áhersla verði lögð á vöxt utan háannar sem muni halda áfram að stuðla að betri nýtingu innviða félagsins.

Aldrei mikilvægara en nú að einblína á það sem félagið hefur stjórn á

Bogi segir í uppgjörstilkynningunni að í ljósi krefjandi aðstæðna í rekstrarumhverfi félagsins hafi „aldrei verið mikilvægara en nú“ að einblína á þá þætti í rekstrinum sem flugfélagið hafi stjórn á eins og strangt kostnaðaraðhald, bætta skilvirkni, ábyrga stýringu á flugframboði og aukna tekjumyndun.

Hann nefnir í því samhengi að í lok annars ársfjórðungs hafði flugfélagið ráðist í aðgerðir sem hluti af ONE umbreytingarvegferð félagsins sem muni skila 90 milljónum dala á ársgrundvelli, eða sem nemur 11 milljörðum króna á núverandi gengi, þegar þær eru komnar að fullu til framkvæmda.

„Að ná fram fullum fjárhagslegum ávinningi af þeim verkefnum sem hafa verið innleidd mun taka tíma en á fyrstu sex mánuðum ársins hafði vegferðin skilað 17 milljónum [dala],“ segir í tilkynningu Icelandair.

Flugfélagið segir dæmi um slík verkefni vera nýir samningar við flugafgreiðsluaðila á flugvöllum erlendis sem hafi stuðlað að lækkun kostnaðar um yfir 20% að meðaltali og breytingar á drykkjarþjónustu á evrópskum flugleiðum sem hafi lækkað kostnað, aukið tekjur og á sama tíma breikkað vöruúrval um borð.

Til viðbótar sé nú unnið að yfirgripsmiklu tekjuverkefni sem hefur það að markmiði að auka tekjur með skilvirkari og hraðari ferlum innan núverandi tekjustýringarkerfis.