Icelandair hefur gert kaupréttarsamninga við 51 stjórnanda hjá fyrirtækinu að því er fram kemur í kauphallartilkynningu frá Icelandair sem send var út á föstudagskvöld.

Hæsti kaupréttarsamningurinn er við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, en hann hefur rétt til að kaupa 22,1 milljónir hluta í félaginu, en markaðsvirði slíkra hluta í dag nemur um 43,5 milljónum króna. 

Icelandair hefur gert kaupréttarsamninga við 51 stjórnanda hjá fyrirtækinu að því er fram kemur í kauphallartilkynningu frá Icelandair sem send var út á föstudagskvöld.

Hæsti kaupréttarsamningurinn er við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, en hann hefur rétt til að kaupa 22,1 milljónir hluta í félaginu, en markaðsvirði slíkra hluta í dag nemur um 43,5 milljónum króna. 

Samkvæmt tilkynningunni eru starfsmönnunum veittir kaupréttir að 393,3 milljónum hluta, en núverandi markaðsvirði þess er um 775 milljónir króna. Þar af eru 123,7 milljónir hluta, um 244 milljónir að markaðsvirði, veitt til framkvæmdastjórnar fyrirtækisins. Aðrir í framkvæmdastjórn Icelandair en Bogi Nils fá kauprétti að 12,7 milljónum hluta hver um sig.

Kaupréttirnir veita starfsmönnum rétt til að kaupa hluti í félaginu eftir þrjú ár, en eru ekki skuldbundnir til þess. Gengið í viðskiptunum mun miðast við núverandi gengi að viðbættum 3% ársvöxtum, leiðrétt fyrir framtíðararðgreiðslum.

Gengi hlutabréfa Icelandair við lokun markaða á föstudag stóð í 1,97 krónum á hlut. Því má áætla að starfsmennirnir geti nýtt kaupréttina á gengi sem nemur um 2,15 krónum á hlut eftir þrjú ár, sé horft framhjá mögulegum arðgreiðslum.

Verði hlutabréfaverð Icelandair hærra en því nemur geta starfsmennirnir hagnast á að nýta kaupréttina. Starfsmenn eru hins vegar ekki skuldbundnir til að nýta kaupréttina og þurfa því ekki að kaupa verði hlutabréfaverð Icelandair lægra en nemur nýtingarverðinu.

Áætlaður kostnaður 230 milljónir

Í tilkynningunni kemur fram að áætlaður kostnaður Icelandair af kaupréttaráætluninni sé um 1,7 milljónir dollara, um 230 milljónum króna, og veittir kaupréttir samsvari um 0,96% af útgefnu hlutafé Icelandair.

Starfsmenn Icelandair geta einungis nýtt kaupréttina ef þeir verða áfram starfandi hjá félaginu, og eru skuldbundir til að halda bréfunum að uppfylltum tilteknum hagnaðarmarkmiðum.