Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir stóran mun að keppa við flugfélagið Play heldur en forvera þess Wow. Það megi rekja til þess að Play hafi verið skráð í Kauphöllina frá því að félagið hóf rekstur fyrir rúmu ári síðan.
„Reksturinn [hjá Play] er gagnsærri, það er stór munur. Þannig að við og önnur flugfélög sjáum miklu betur hvernig hlutirnir eru að raungerast,“ segir Bogi í nýjasta hlaðvarpsþætti Chess after Dark.
Þar sem Play er skráð á markað birtir það ársfjórðungsuppgjör ásamt því að birta mánaðarlegar flutningatölur. „Það er svolítið annað en var hjá Wow, þó þeir hafi síðar farið út í það að birta flutningatölurnar,“ segir Bogi og bætir við að Icelandair greini markaðinn mjög reglulega.
Spurður nánar um samkeppnina við Play og hvaða áhrif innkoma félagsins sé búin að hafa á verðlagningu Icelandair þá bendir Bogi á að félögin séu einnig í samkeppni við mörg af stærstu flugfélögum heims.
„Það eru 25 félög að fljúga til og frá Íslandi þannig að samkeppnin er mikil og það er ekkert eitt félag sem stýrir einhverri verðlagningu. Þannig að þegar Play fer að bæta í eða draga úr - það hefur ekki bein áhrif á verðlagninguna hjá okkur. Það er miklu frekar aðföngin eins og eldsneytið og þess háttar.“
Þegar talið barst að markaðshlutdeild Icelandair, þá segist Bogi áætla að Icelandair verði með um 60% af flugframboði í Keflavík í ár. Hins vegar séu Icelandair og Play einnig að keppa á markaðnum á milli Evrópu og Norður-Ameríku. Þar hafi Icelandair verið með um 2% hlutdeild fyrir Covid-faraldurinn.
Hefur fulla trú á því að Play lifi af
Umsjónarmenn hlaðvarpsins, Birkir Karl Sigurðsson og Leifur Þorsteinsson, rifjuðu upp ummæli Boga í Markaðnum frá því í árslok 2020, áður en Play hóf starfsemi, þar sem hann sagðist vera á þeirri skoðun að „að það sé engan veginn raunhæft að reka tvö flugfélög frá Íslandi sem eru með Keflavíkurflugvöll sem tengimiðstöð (e. hub)“.
Bogi ítrekar að hann hafi í þessu samhengi sérstaklega verið að ræða um tvö tengiflugfélög sem styðjist við sama flugvöllinn sem tengimiðstöð. Hann hafi verið „tekinn á teppið“ og skammaður af eftirlitsstofnunum fyrir ummælin en segist þó enn vera á sömu skoðun.
„Ég var aðallega bara að vísa í bæði söguna hérna á Íslandi þegar ég sagði þetta og ekki síður hvernig þetta er úti í heimi á miklu stærri flugvöllum en eru hér. Það er mjög sjaldgæft að það séu tvö tengiflugfélög á sama flugvellinum. Það er ekki nema markaðurinn þar sé einhverjar milljónir, jafnvel tugir milljóna [farþega]. Ég sé ekki að það hafi breyst nokkuð í þessu, hvorki í sögunni né í umhverfinu úti í heimi. Ég er bara að horfa á staðreyndir í kringum mig.“
Síðar í þættinum var Bogi spurður hvort hann hefði trú á að Play myndi lifa af. „Já ég hef trú á því. Við gerum að sjálfsögðu bara ráð fyrir að Play lifi af,“ svarar hann og bætir við að öflugur hópur starfi hjá Play, þar á meðal fyrrum starfsmenn Icelandair.
Náðu ekki upp sama takti áður en stríðið hófst
Spurður um hversu mikla vigt Icelandair leggi á framvirka samninga til að verja sig fyrir sveiflum á eldsneytisverði, þá segir Bogi að flugfélagið hafi fyrir Covid miðað við að verja um 40%-60% af áætlaðri notkun tólf mánuði fram í tímann og 20% næstu sex mánuði þar á eftir.
„Þetta snerist alls ekki um að reyna að vinna markaðinn eða spá fyrir um hvernig þetta væri að þróast, þetta snerist eingöngu um að minnka sveiflur í okkar rekstri - meiri fyrirsjáanleiki fyrir tekjustýringu og okkur í stjórnendateymi félagsins.“
Eldsneytisverð hafi hins vegar lækkað verulega í kjölfar útbreiðslu Covid-veirunnar, m.a. þar sem eftirspurn í fluggeiranum hrundi. Framvirku samningar Icelandair á þeim tíma hafi þá allir farið í mínus og leiddu af sér töluverðan kostnað.
„Hluti af endurskipulagningunni hjá okkur árið 2020 var að semja við mótaðila um stöðuna á þessum vörnum. Við rúlluðum þeim áfram og erum enn þá með þær varnir að einhverju leyti áfram í þessum fjórðungi og á þeim næsta sem er mjög jákvætt,“ Þeir samningar séu á „miklu lægri verðum“ en núverandi markaðsverð á eldsneyti.
Bogi segir að Icelandair hafi ekki gert nýja samninga í faraldrinum. Flugfélagið hafi ætlað að hefja þá vegferð að fylgja fyrri stefnu en það hafi tafist vegna delta- og ómíkron-afbrigða kórónuveirunnar sem leiddu til þess að flugframboð félagsins var skorið niður.
„Þannig að við fórum fyrst mjög varlega í sakirnar að verja og vorum alltaf að bíða eftir að sæjum að við værum komin út úr þessu. Svo þegar við vorum komin út úr þessu þá skellur á stríð og verðið hækkar. Þannig að við höfum aldrei komist í þennan almennilegan takt eins og við vorum í mörg ár fyrir Covid.“
Þáttastjórnendur spurðu Boga hvernig varnir Icelandair væru í samanburði við erlenda samkeppnisaðila. Hann segir að í gegnum tíðina hafa evrópsk flugfélög varið sig töluvert meira af áætlaðri notkun heldur en þau bandarísku. Félög í Evrópu hafi sum gert framvirka samninga fyrir allt að 90% af áætlaðri notkun á meðan þau bandarísku hafi mörg verið nálægt núllinu.
Bogi segir að þegar stefna Icelandair var mörkuð hvað eldsneytisvarnir varðar, þá hafi meðal annars verið horft til þess að vera þarna mitt á milli en íslenska flugfélagið keppi við félög beggja vegna Atlantshafsins.