Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, hefur fyrir Innviðafélags Vestfjarða sent yfirlýsingu þar sem lýst er yfir miklum áhyggjum vegna fækkunar bókana skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar árið 2027.
Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið að nýtt innviðagjald, sem sett hafi verið á með skömmum fyrirvara og án fullnægjandi samráðs, hafi skapað óvissu og leitt til fækkunar skipakoma.
Guðmundur stofnaði Innviðafélag Vestfjarða síðasta sumar ásamt fulltrúum fyrirtækja á Vestfjörðum en samtökin hafa það markmið að stuðla að bættri umræðu um innviði og uppbyggingu í þeim hluta landsins.
„Bókanir skemmtiferðaskipa fyrir árið 2027 eru einungis um helmingur þess sem bókað hafði verið fyrir árið 2026 á sama tíma í fyrra. Skemmtiferðaskip greiða nú þegar hafnargjöld og önnur gjöld tengd komu sinni á svæðið, og þau gjöld hafa reynst ómetanleg við uppbyggingu á höfnum og öðrum innviðum tengdum þeim.“
Hann segir það sorglegt að svokallað innviðagjald hins opinbera muni mögulega leiða til mun minni fjármuna til handa innviðauppbyggingu á Vestfjörðum.
Mismunun og aukin óvissa
Að mati Guðmundar er einnig verið að mismuna ferðamönnum en hann bendir á að flugvélar sem fljúgi til Íslands borgi komugjöld en flugfarþegar sleppa hins vegar við öll slík gjöld.
„Það er nýbúið að setja svona komugjöld á til dæmis í Bretlandi en þá borga flugfarþegar 16 pund, eða 2.700 krónur, við komu til landsins. Það er hins vegar bara rugl að vera að rukka farþega skemmtiferðaskipa 2.500 krónur á hvern farþega fyrir hvern einasta dag.“
Aðspurður hvort fækkunin gæti mögulega tengst því að Ísland sé að detta úr tísku meðal ferðamanna telur Guðmundur svo ekki vera. „Hins vegar ef raunin er sú þá gerir þetta gjald aðeins illt verra því þá ertu kominn með tvöfalt neikvætt.“
Guðmundur bætir við að hann sé ósammála þeirri hugsun að farþegar skemmtiferðaskipa skilji eftir sig minna fjármagn í landinu en flugfarþegar.
„Það eru 20 rútur á bryggjukantinum á Ísafirði þegar skipin eru sem flest. Allir þessir farþegar eru á leið í skemmti- og skoðunarferðir í Bolungarvík, Verðbúðina og yfir til Þingeyrar. Það er mikil uppbygging nú þegar að eiga sér stað og þetta gjald setur uppbyggingu á ferðainnviðum á Vestfjörðum í algjört uppnám.“