Bókari Skálatúns fékk í gær níu mánaða skilorðsbundinn dóm í Héraðsdómi Reykjaness fyrir fjárdrátt. Haldi hann skilorð í tvö ár fellur refsing niður. Honum var gert að greiða allan sakarkostnað, 482 þúsund krónur

Maðurinn dró sér um 11,4 milljónir króna frá september 2010 til júní 2019 í 53 færslum. Hann játaði sök og endurgreiddi alla fjárhæðina áður en málið var dómtekið.

Um ákvörðun refsingar sagði í dómnum.

Samkvæmt sakavottorði dagsett 22. nóvember 2022 hefur ákærði ekki áður sætt refsingu.

Við ákvörðun refsingar verður litið til þess. Jafnframt verður litið til þess að ákærði hefur játað brot sín án undanbragða auk þess sem hann var, að sögn sækjanda, samvinnuþýður við rannsókn málsins.

Þá liggur fyrir að ákærði endurgreiddi Skálatúni að fullu þær fjárhæðir sem hann dró að sér og tilgreindar eru í ákæruskjali, auk þess sem nokkuð er liðið frá því brotin voru framin. Á hinn bóginn verður ekki framhjá því horft að brotin stóðu yfir í langan tíma og vörðuðu umtalsverðar fjárhæðir.

Fjárdrátturinn uppgötvaðist fyrir tveimur árum þegar ráðist var í fjárhagslega endurskipulagningu á Skálatúni. Maðurinn, sem einnig var launafulltrúi, var sendur í leyfi meðan málið var skoðað innanhúss.

Skálatún er heimili í Mosfellsbæ fyrir fólk með þroskahömlun.

Hér má lesa dóminn í heild.